Fréttir

Hamar engin fyrirstaða í kvöld á Jakanum

Körfubolti | 23.09.2013
Og þá erum við komnir áfram
Og þá erum við komnir áfram
KFÍ og Hamar mættust í kvöld í Ísjakanum á Ísafirði í lokaleik liðanna í riðlakeppni Lengjubikarsins. KFÍ var fyrir leikinn í 2. sæti C-riðilsins og átti góða möguleika á að komast í 8. liða úrslitin með sigri. Hamar hafði hins vegar tapað öllum fimm leikjum sínum í riðlinum og því skiptu úrslit úr þessum leik þá litlu sem engu máli.
 
Hvergerðingar mættu ansi fámennir á Jakann en þeir voru einungis með sjö menn í búning. Þar á meðal var einn fyrrum leikmaður KFÍ, hinn 37 ára gamli Sigurbjörn Einarsson, en lék með Ísfirðingum á árunum 2002-2004 og var lykilleikmaður í sigurliði þeirra í 1. deildinni árið 2003.
 
Ísfirðingar byrjuðu leikinn talsvert betur en gestirnir og komust í 8-0 á fyrstu mínútunum en Hamarsmenn náðu þó að vinna upp þann mun og munaði einungis stigi á liðunum í lok fyrsta leikhluta, 14-13.
 
Í öðrum leikhluta gaf Birgir Birgisson, þjálfari KFÍ, yngri og óreyndari leikmönnum sínum mikin spilunartíma og hvíldi t.d. Jason Smith allan leikhlutann. Þeir yngri fúlsuðu ekki við því og sýndu margir hverjir ágætis leik, m.a. miðherjinn sterki, Jóhann Jakob Friðriksson, sem setti nokkrar körfur og varði fáein skot í leikhlutanum. KFÍ hélt áfram að bæta við forustuna og leiddi í hálfleik með tíu stigum, 38-28.
 
Í byrjun seinni hálfleiks lét Birgir þungaviktarmennina inná til að gera endanlega út um leikinn. Það reyndist leikur kattarins að músinni enda skoruðu Ísfirðingar 34 stig á móti 16 stigum Hvergerðinga og leiddu 72-42 fyrir loka leikhlutann.
 
Fjórði leikhluti var svo formsatriði fyrir heimamenn sem unnu að lokum 85-61 sigur. Ísfirðingar eru því komnir áfram í 8 liða úrslit Lengjubikarsins og mæta þar KR á útivelli á þriðjudaginn.
 
Hraunar Karl Guðmundsson og Mirko Stefán Virijevic skoruðu báðir 16 stig fyrir KFÍ en Ágúst Angatýsson bætti við 12 stigum.
 
Hjá Hamar var Bragi Bjarnason bestur með 21 stig en gamla brýnið Sigurbjörn Einarsson bætti við tvennu, 13 stigum og 11 fráköstum.
 
Deila