Fréttir

Hart barist í stúlknaflokkum

Körfubolti | 16.11.2017
Minniboltastelpur Vestra með Stefaníu Ásmundsdóttur, fararstjóra og þjálfara. Á myndina vantar einn liðsmann, sem tók einnig  þátt í lúðrasveitarhátíð í Hörpunni þessa sömu helgi.
Minniboltastelpur Vestra með Stefaníu Ásmundsdóttur, fararstjóra og þjálfara. Á myndina vantar einn liðsmann, sem tók einnig þátt í lúðrasveitarhátíð í Hörpunni þessa sömu helgi.
1 af 2

Tveir stúlknaflokkar Kkd. Vestra spiluðu að heiman í Íslandsmótum um síðustu helgi og þótt sigrarnir hefðu ekki allir fallið okkar megin var frammistaða bekkja flokka góð. Stelpurnar í 9. flokki kepptu í A-riðli í annarri umferð Íslandsmótsins og var leikið í Keflavík en þær höfðu sigrað B-riðil örugglega í fyrstu umferð. Stelpurnar í minnibolta eldri (11 ára) sóttu Þorlákshöfn heim í fjölliðamóti þar sem þær tókust á við jafnöldrur sínar í B-riðli.   

Í riðli með þeim bestu

Níundi flokkurinn hóf leik gegn stöllum sínum úr Grindavík. Vestrastelpur byrjuðu af krafti og komust snemma í 6-0 en fljótlega snéru þær grindvísku taflinu við og réði Vestri illa við léttleikandi lið andstæðinganna. Að sama skapi gekk Vestra bölvanlega að koma knettinum í körfuna og svo fór að Grindavík vann öruggan sigur, 51-23. Þrátt fyrir stórt tap þá sýndu okkar stelpur oft lipra takta og bjartsýni var ríkjandi fyrir framhaldinu.

Seinni leikur laugardagsins var gegn sameiginlegu liði Tindastóls/Þórs. Fyrri hálfleikur var nokkuð góður hjá Vestra sem leiddu í hálfleik 20-19 og allt útlit fyrir spennandi leik. Því miður fyrir Vestrastelpur þá misstu þær dampinn í seinni hálfleik og voru alltof fáar að leggja sitt af mörkum sóknarlega. Þær norðlensku mölluðu áfram líkt og vel smurð díselvél og náðu níu stiga forystu fyrir lokaleikhlutann. Vestri byrjaði ágætlega í 4. leikhluta, náði að saxa á forystu andstæðinganna en allt kom fyrir ekki. Tindastóll/Þór hrósaði sigri 54-36 í leik sem lofaði góðu framan af.

Besti leikur liðsins var gegn heimasætunum í Keflavík. Leikurinn fór fram snemma á sunnudeginum en þrátt fyrir það sýndu Vestrastelpur góðan leik allt til enda. Keflavík hafði frumkvæðið mestallan leikinn en undir lokin var munurinn aðeins tvö stig fyrir heimaliðið og Vestri með boltann. Því miður fyrir Vestra tókst ekki að koma boltanum í körfu Keflvíkinga sem héldu út 46-38. Í sannleika sagt var þetta langbesti leikur Vestra á mótinu og sýndi liðið með þessum leik að það getur hæglega spilað með þeim bestu með örlítilli heppni og meiri reynslu gegn bestu liðunum.

Síðasti leikur Vestra var svo gegn Njarðvíkingum. Í raun hafði liðið engu að tapa í þessum leik þar sem úrslit innbyrðis voru liðinu óhagstæð. Yngvi Páll Gunnlaugsson, þjálfari liðsins, skipti ört og ljóst að dagskipunin var að gefa þeim fleiri mínútur sem höfðu spilað minna. Úrslit leiksins voru algjört aukaatriði, en svo fór að Njarðvíkingar höfðu öruggan sigur 76-29.

Heilt yfir geta stelpurnar verið sáttar við sína frammistöðu en ljóst er að mun meira býr í liðinu en það sýndi nú. Þarna mættu þær fjórum bestu liðum landsins og má ljóst vera að reynsluleysi gegn þessum bestu liðum vóg þungt þegar upp var staðið. Stelpurnar náðu oft að sýna sitt rétta andlit en því miður voru þeir kaflar of stuttir til að hægt væri að knýja fram jákvæð úrslit. Vestri leikur því í B-riðli í þriðju umferð en liðið sýndi þó svo um munar að það á eftir að fá annað tækifæri í A-riðli áður en langt um líður.

Öflugar minniboltastelpur

Í minniboltamótinu í Þorlákshöfn um síðustu helgi fyrir 11 ára stúlkur voru sjö sprækar Vestrastelpur skráðar til leiks og  dugði ekkert minna en að tveir skólastjórar tækju að sér fararstjórn þessa helgi. Lagt var af stað frá Ísafirði á föstudeginum í blíðskaparveðri og keyrt alla leið í Þorlákshöfn. Gist var í grunnskólanum og var allur aðbúnaður og aðstæður til fyrirmyndar, en ferðlangarnir komu sér vel fyrir í einni skólastofnni.

Laugardagurinn var keppnisdagur og mættu Vestrastelpur vel tilbúnar til leiks í B-riðli mótsins. Þær spiluðu fyrsta leikinn mjög vel sem skilaði þeim góðum sigri á móti Grindavík. Héldu stúlkurnar svo uppteknum hætti í seinni leik dagsins og unnu flottan sigur á Njarðvíkingum. Eftir keppni dagsins skellti hópurinn sér í sund og hafði það notalegt fram að kvöldmat en þá var farið út að borða. Eftir góðan dag var mikilvægt að hvíla sig vel fyrir seinni keppnisdaginn og ferðlagið heim.

Sunnudagurinn hófst á því að gengið var frá öllu áður en mogunmaturinn var snæddur þar sem brunað yrði heim á leið strax að móti loknu. Fyrri leikur sunnudagsins var mikill baráttuleikur en okkur brást bogalistin við að koma boltanum ofan í körfuna í síðustu skotunum og tapaðist sá leikur ansi naumt eða með fjögurra stiga mun á móti Stjörnustúlkum. Þegar Vestrastelpur voru búnar að jafna sig mættu þær ákveðnar í seinni leikinn og gáfu allt í hann á móti sterku liði KR-inga. Þegar upp var staðið tapaðist sá leikur með sex stiga mun en okkar stúlkur gátu svo sannarlega gengið sáttar frá leikjunum öllum þar sem þær gáfu allt sitt í leiki helgarinnar.

Miklar framfarir voru sjáanlegar hjá öllum liðsmönnum og svo sannarlega hægt að segja að framtíðin sé þeirra ef þær halda áfram að æfa vel.  Vestrastelpurnar voru félaginu til sóma í alla staði.

Skólastjórarnir Sveinfríður Olga Veturliðadóttir  og Stefanía Ásmundsdóttir eiga báðar dætur í liðinu og þær rúlluðu upp bæði fararstjórn og akstri í þessari ferð. Þess utan stýrði Stefanía öllum leikjum Vestra um helgina en hún hljóp í skarðið í fjarveru Nökkva Harðarsonar, sem er aðalþjálfari stelpnanna.  Stefanía þekkir þó hópinn betur en flestir enda þjálfaði hún þær þegar þær voru flestar að stíga sín fyrstu spor í körfu.

Deila