Fréttir

Háspenna, tap og sigur !

Körfubolti | 16.10.2022

Það var stemning á Jakanum um helgina þegar ÍR-b spilaði gegn okkar drengjum í Vestra.

Fyrir leikina var Vigurbolinn Baldur Ingi Jónasson búinn að ná að setja sig á meiðslalistinn, hann ku hafa tognað í kálfa við að reima á sig skóna á æfingu í vikunni. Hann vildi engin viðtöl veita fyrir leik. Við óskum honum góðs bata og minnum á að hægt er að senda batakveðjur á hann hér á síðunni.

En að leiknum í gær. Strákarnir virkuðu vel stemmdir í leiknum og var jafnræði framan af. Marko fór hamförum hjá okkur en vörnin var ekki upp á marga fiska. Leikurinn var ansi sveiflukenndur og náðum við að komast 13 stigum yfir með góðu áhlaupi. Við misstum það forskot niður fyrir tilstilli leyniskyttu í liði ÍR en ungur og efnilegur Ír-ingur sem hefur verið með í hóp í úrvalsdeildinni skaut Ír-ingum inni í leikinn. Á meðan var Pétur að hreyfa liðið vel og fengu allir leikmenn að spreyta sig í fyrri hálf leik. Pétur þrumaði nokkrum vel völdum orðum á púkana í tepásunni og byrjuðum við vel og komumst aftur inn í leikinn og á lokamínútum náðum við að jafna leikinn. Síðasta sókn Ír-inga var vel heppnuð en með heppnisstimpli sem endaði með þristi og Ír-b vann þennan sveiflukennda háspennu leik með 3 stigum, 80-83. Marko var sem fyrr atkvæðamikill með 42 stig og setti körfur í öllum regnbogans litum. Ingimar var með 12 stig, bræðurnir Blessed og James með 6 stig, Magnús, Krzysztof og Elmar voru með 4 stig. Nýliðinn Hjálmar var með 2 stig, en hann fékk jafnframt tækifæri í byrjunarliðinu og var gaman að sjá hann nýta það vel.

Seinni leikurinn var svo í dag og var smá doði og hik yfir leik heimamanna til að byrja með. ÍR-ingar sýndu hinsvegar enga miskunn og röðuðu niður þristum. Fyrri hálfleikurinn var hreinlega þeirra eign og þeir komust í gott forskot. Tapaðir boltar og slök vörn heimamanna var helst um að kenna og hittni okkar manna var ekki góð. Pétur ákvað að eyða sem fæstum orðum á púkana í hálfleik og oft er betra að gera það því þeir eiga að vita hvað þeir gerðu rangt. Áfram héldu heimamenn að vera gestrisnir. ÍR þökkuðu fyrir sig og voru komnir með 22 stiga forskot. Undrun og þögnin í stúkunni var orðin ærandi enda heimamenn að spila illa og hitta illa. Þjálfarinn breytti um leikskipulag og urðu heimamenn ákafari í vörninni. Vestri fór að fá auðveldar körfur eftir stolna bolta og hitta opnum skotum. Hægt og rólega klóruðu sig inn aftur í leikinn. Mikilvægt að vörnin hélt á meðan við náðum góðum sóknum. Í lokin var dómaraflautan komin í aðalhlutverk og mikið flautað sem endaði iðulega með því að Marko, besta vítaskyttan var send á línuna. Marko var stöðugur um helgina með 42 stig. Ingimar var með 11 stig. Hinn ungi Hjálmar var með 10 stig og sannkallaðan rýtingsþrist á síðustu mínútu leiksins. Blessed var með 8 stig, James með 6 stig, Elmar með 5 stig, Krzysztof með 4 stig og Jón Gunnar með 2 stig

Pétur hefur verið að leyfa strákunum að spreyta sig og gaman að sjá nýliðana fá tækifæri. Hjálmar var flottur í seinni leiknum og var að spila sínu fyrst 2 leiki. Jón, Magnús, Elmar eru að fá dýrmæta reynslu og munu eflast á komandi árum. Kryzysztof, James og Blessed börðust virkilega vel og gaman að sjá James taka leyniskyttuna úr fyrri leiknum nánast úr umferð allan seinni leikinn. Það er jú vörnin sem leggur grunnin að sigrum og loksins þegar ákefðin í vörn kom í seinni leiknum þá stálu heimamenn boltanum og fengu auðveldar körfur.

Mætingin var frábær um helgina og þvílíkur stuðningur þar og skemmtileg stemming. Sjoppan brilleðari og alltaf eru foreldrar mættir með heimabakað gúmmelaði sem rennur eins og gullfiskur í rennibraut í magann.

Gaui Þ og Shiran

Deila