Fréttir

Haukar lögðu Vestra í kaflaskiptum leik

Körfubolti | 07.11.2016

Vestri tók á móti úrvalsdeildarlið Hauka mætti á Jakann í kvöld í 32. liða úrslitum Maltbikarsins. Leikurinn var vægast sagt kaflaskiptur. Vestramenn mættu mjög ákveðnir til leiks og áttu í fullu tré við Hauka í fyrri hálfleik. Aðeins munaði einu stigi í hálfleik Haukum í vil, 47-48. Í þeim síðari varð algjör kúvending á leiknum og Haukar einfaldlega tóku hann yfir. Það tók Vestra fimm og hálfa mínútu að skora fyrstu stig þriðja leikhluta á meðan Haukarnir sölluðu niður 22 stigum gegn engu. Eftir þetta sá Vestri ekki til sólar, lokatölur 68-109.

Það var virkilega gaman að sjá Vestramenn spila í fyrri hálfeik. Sjálfstraustið skein af mönnum, sóknarleikurinn gekk vel og góð baraátta var í vörninni. Í stuttu máli má segja að þessi leikur hafi sýnt bestu og verstu hliðar liðsins í sitthvorum hálfleiknum. Fyrirfram var auðvitað vitað að Haukar yrðu erfiður andstæðingur. Nú þarf bara að taka það góða úr fyrri hálfleik og byggja ofan á það því næst á dagskrá er mikilvægur útileikur gegn Ármenningum á föstudag.

Yima Chia-Kur var stigahæstur hjá Vestra með 17 stig. Hinrik skoraði 15 og Magnús Breki átti góða innkomu með 14 stig. Nebojsa skoraði 13 en aðrir voru með minna.

Hjá Haukum Var Sherrod Wright stigahæstur með 32 stig, Breki Gylfason var með 14 líkt og Finnur Atli og Haukur Óskarsson með 12. Allir Haukamenn komstu á blað í leiknum.

Tölfræði leiksins má nálgast hér.

Deila