Fréttir

Helena og Friðrik valin í lokahóp U15 landsliðanna

Körfubolti | 25.04.2018
Helena Haraldsdóttir og Friðrik Heiðar Vignisson voru valin í U-15 landslið stúlkna og drengja.
Helena Haraldsdóttir og Friðrik Heiðar Vignisson voru valin í U-15 landslið stúlkna og drengja.

Tveir iðkendur Körfuknattleiksdeildar Vestra hafa verið valdir í lokahóp U15 ára landsliða KKÍ fyrir sumarið 2018. Það eru þau Helena Haraldsdóttir og Friðrik Heiðar Vignisson. Helena hefur leikið með 9. og 10. flokki stúlkna í vetur en Friðrik spilar með 10. flokki drengja hjá Vestra sem í samstarfi við Skallagrím er á leið í undanúrslit Íslandsmótsins um aðra helgi. Einnig hefur Friðrik keppt með 9. flokki Snæfells í vetur.

Það er virkilega ánægjulegt að sjá árangur í yngri flokkastarfi Kkd. Vestra endurspeglast í því að fleiri iðkendur eru að stimpla sig inn í afreksverkefni KKÍ en nýverið voru bræðurnir Hilmir og Hugi Hallgrímssynir valdir í lokahóp U16 ára landsliðsins.

Eins og við greindum frá fyrr í vetur hefur Vestri, og KFÍ áður, aldrei átt fleiri þátttakendur í æfingahópum yngri landsliða. Alls voru tíu iðkendur úr Vestra á aldrinum 15-17 ára valin í úrtakshópa sem æfðu undir stjórn landsliðsþjálfara á milli jóla og nýárs.

U15 liðin taka þátt á alþjóðlegur móti 14.-17. júní og verða tvö 9 manna lið í hjá bæði strákum og stelpum á mótinu. Þjálfari stúlknanna er Ingvar Þór Guðjónsson og honum til aðstoðar er Atli Geir Júlíusson. Þjálfari drengjanna er Hjalti Þór Vilhjálmsson og aðstoðarþjálfari hans Skúli Ingibergur Þórarinsson.

Áfram Vestri!

Deila