Fréttir

Hörkusigur á Hamri

Körfubolti | 03.11.2017
Bekkurinn var þétt setinn á Jakanum í kvöld!
Bekkurinn var þétt setinn á Jakanum í kvöld!
1 af 2

Vestri lagði Hamar að velli á Jakanum í kvöld 93-81. Leikurinn var fjörugur, hraður og skemmtilegur frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu.

Vestramenn byrjuðu betur og höfðu yfirhöndina framan af fyrsta fjórðungi. Gestirnir hleyptu þeim þó aldrei langt undan og náðu að jafna leikinn á níundi mínút og komust svo yfir, 27-29, með flautukörfu á síðustu sekúndunni. Í uppafi annars fjórðungs héldu Hamarsmenn uppteknum hætti og bættu við forskotið og náðu mest 10 stiga forystu á fimmtándu mínútu 31-41. Þá fór svæðisvörn Vestramanna að virka betur og skiluðu nokkrir stolnir boltar góðum körfum. Með þessu náðu Vestramenn að jafna leikinn 44-44 þegar 1 mínút og 10 sekúndur voru eftir af hálfleiknum. Gestirnir áttu hinsvegar lokaorðið áður en flautað var til leikhlés með góðri körfu Julian Nelson. Staðan 44-46 í hálfleik.

Vestramenn komu mjög vel stemmdir út úr klefanum eftir hálfleik. Fyrirliðinn Nökkvi Harðarson setti tóninn með þriggja stiga körfu í upphafi og kom Vestra yfir. Nökkvi og Nemanja voru allt í öllu hjá Vestra á þessum tíma, rifu niður fráköst, gáfu stoðsendingar og skoruðu grimmt. Á tímabili virtust Nökkva allir vegir færir og hann skoraði 10 stig Vestra í röð sem skilaði 9 stiga forystu. Vestramenn léku pressuvörn Hamars grátt á þessum tíma og fengu nokkrar góðar hraðaupphlaupskörfur sem skilaði 14 stiga forystu 78-64 þegar leikhlutinn var úti. Í loka leikhlutanum var komin nokkur þreyta í Vestramenn en Ingimar og Nebojsa spiluðu allar 40 mínútur leiksins auk þess sem Nökkvi og Nemanja spiluðu u.þ.b. 35. Pétur Ingvarsson, þjálfari Hamars, skipti aftur á móti reglulega um alla fimm leikmenn sína og róteraði þannig tveimur Bandaríkjamönnum liðsins. En heimamenn héldu út og skiluðu góðum sigri 93-81.

Það sem skóp þennan sigur var góð barátta í vörninni en þó einkum og sér í lagi gott samspil allra leikmann sem sést vel á því að flestir þeirra fengu skráðar stoðsendingar á sig.

Þeir Nökkvi Harðarson og Nemanja Knezevic voru bestu menn vallarins í kvöld, Nökkvi með 36 framlagspunkta og Nemanja með 35. Nökkvi átti án efa sinn besta leik til þessa í fyrstu deildinni og daðraði við þrennu með 26 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar. Nemanja var að vanda með tröllatvennu með 22 stig og 25 fráköst auk 3 stoðsendinga. Nebojsa skilaði sínu með 26 stig og 7 stoðsendingar. Gunnlaugur átti góða innkomu með 7 stig, 3 fráköst og 2 stoðsendingar. Adam skoraði einnig 7 stig, tók 2 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Ingimar Aron skoraði  5 stig og barðist eins og ljón allan leikinn í vörninni. Rúnar Ingi kom inn á og skilaði góðu verki í svæðisvörninni. Andre kom lítið við sögu í þessum leik en kemst vonandi betur inn í leik liðsins þegar á líður.

Hjá gestunum var Julian Nelson atkvæðamestur með 18 stig, Þorgeir Freyr gíslason skoraði 14 og Larry Thomas 10.

Ítarlega tölfræði leiksins má skoða á heimasíðu KKÍ.

Deila