Fréttir

Hraður og fjörugur leikur gegn Skallagrími

Körfubolti | 28.02.2016

KFÍ (KKD Vestra) tók á móti Skallagrími síðastliðinn föstudag hér heima á Torfnesi. Leikurinn var hraður og spennandi og mikið skorað. Gestirnir höfðu þó þrettán stiga sigur 88-101, ekki síst vegna þriggjastiga flugeldasýningu sem þeir settu í gang í síðari hálfleik.

 

Leikurinn var jafn til að byrja með, KFÍ komst yfir 2-0 í upphafi og liðin skiptust á að leiða og jafna. Undir lok fyrsta fjórðungs sigu gestirnir þó fram úr og leiddu 16-22 í lok hans. Í öðrum leikhluta héldu gestirnir forystunni en KFÍ hleypti þeim þó aldrei í meira en 10 stiga forystu og voru því inn í leiknum þegar flautað var til hálfleiks í stöðunni 36-46.

 

Í síðari hálf var áfram hlutskipti KFÍ að elta og munurinn hélst í þetta 6-12 stigum. KFÍ drengir átti ágæta kafla í þriðja fjórðungi þar sem oft náðist að opna vörn Skallagríms með opnum skotum inn í teig og undir körfunni. Vonir heimamanna á þessum góða kafla voru þó jafnóðum slökktar með ótrúlegri þriggja stiga sýningu sem gestirnir settu í gang á þessum tíma. Fyrir gestunum fór Sigtryggur Arnar Björnsson, sem lítið hafði sést í fyrri hálfleik en setti heldur betur í fluggírinn í þeim síðari og setti alls fimm þrista í honum. Honum til aðstoðar í flugeldasýningunni voru Davíð Guðmundsson og Hafþór Ingi Gunnarsson sem settu sitthvor þrjá þristana. Þótt sóknarleikur KFÍ hafi gengið vel í á köflum var einfaldlega erfitt að fá alltaf þrjú stig í andlitið eftir góða tveggja stiga sókn. Slíkt skrifast auðvitað á varnarleik okkar manna en allt of mörg þessara þriggja stiga skota voru galopin. Miðherji gestanna Jean Rony Cadet var einnig óþægur ljár í þúfu en hann var besti maður vallarins, daðraði við þrennuna, setti niður 31 stig, tók 12 fráköst og gaf 8 stoðsendingar auk þess að fiska 11 villur.

 

Hjá KFÍ var Nebojsa bestur, skoraði 26 stig, tók 8 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Kjartan Helgi átti einnig mjög góðan leik skoraði 26 stig átti 5 stoðsendingar og tók 2 fráköst. Birgir Björn skoraði 14 stig og tók 10 fráköst. Daníel Þór Midgley skoraði 9 stig, gaf 6 stoðsendingar, tók 5 fráköst og stal 3 boltum. Nökkvi skoraði 7 stig, tók 3 fráköst og gaf 2 stoðsendingar og barðist eins og ljón. Gunnlaugur skoraði 4 stig og tók 2 fráköst og Florijan skoraði 2 stig, tók 2 fráköst og stal tveimur boltum og gaf eina stoðsendingu.

 

Þótt varnarleikurinn hafi ekki verið upp á marga fiska, einkum í síðari hálfleik var margt jákvætt í sóknarleiknum. En til að vinna leiki þarf þetta tvennt að spila saman og því ekkert að gera annað en að bíta í skjaldarrendur fyrir næsta leik og bæta vörnina. Næsti leikur liðsins er útileikur gegn Fjölni.

 

Ítarlega tölfræði leiksins má finna á vef KKÍ.      

Deila