Fréttir

„Hrikalega ánægður með stelpurnar“

Körfubolti | 19.10.2015
Lið KFÍ sem keppti í B-riðli Íslandsmóts 7. flokks stúlkna um helgina ásamt Nökkva Harðarsyni þjálfara.
Lið KFÍ sem keppti í B-riðli Íslandsmóts 7. flokks stúlkna um helgina ásamt Nökkva Harðarsyni þjálfara.
1 af 2

Stelpurnar í 7. flokki KFÍ hófu leik í fyrstu umferð Íslandsmótsins í B-riðli um helgina en riðillinn fór fram á heimavelli KR í Frostaskjólinu.

 

Allir þrír leikir mótsins fóru fram á laugardeginum og hófu KFÍ leik gegn Stjörnunni. Stjörnustúlkur eru með sterkt lið og unnu þær leikinn örugglega. Okkar stelpur sýndu fína takta en voru alltaf skrefinu á eftir. Lokatölur 44-21 Stjörnunni í vil. Þess má geta að Stjarnan vann öruggan sigur í öllum leikjum sínum riðlinum og spilar því í A-riðli í næstu umferð.

 

Í öðrum leiknum, gegn KR, var allt annað að sjá til KFÍ stelpna. Baráttan var mikil og var leikurinn mjög jafn. KFÍ stelpur voru óheppnar að missa leikinni í framlengingu og lukkan gekk ekki í lið með þeim í framlengingunni því KR stelpur mörðu sigur 28-26. Að sögn farastjóra liðsins, Jóhanns Birkis Helgasonar, var leikurinn svo spennandi að stúkan stóð á öndinni. „Þetta var eins og að horfa á landsleik!“, sagði Jóhann Birkir að leik loknum og hrósaði Nökkva Harðarsyni þjálfara fyrir hve vel hann stýrði liðinu í þessum spennuþrungna leik.

 

Í síðasta leiknum mættu KFÍ stelpur Njarðvík B. Þá voru stelpurnar orðnar þreyttar og ekkert vildi ofan í. Lokatölur 22-12 Njarðvík í vil og fall KFÍ í C-riðil staðreynd.

 

Nökkvi Harðarson, þjálfari stelpnanna var engu að síður ánægður með framistöðu liðsins á mótinu. „Ég er hrikalega ánægður með stelpurnar. Þær eiga mikið hrós skilið þó að úrslitin hafi ekki verið eins og maður óskaði sér. Þær hafa tekið gríðarlegum framförum og ég er mjög ánægður með þær. Með aðeins minna stessi og smá heppni hefðu úrslitin getað orðið öðruvísi. En nú er bara að halda áfram og gera betur í næstu umferð.“

 

Næsta umferð stelpnanna í 7. flokki fer fram dagana 21.-22. nóvember. Það er þó skammt á milli stórræða hjá þessum efnilegu stelpum því margar þeirra munu einnig taka þátt í fyrstu umferð C-riðils Íslandsmótsins með 8. flokki KFÍ. Riðillinn fer fram hér heima á Ísafirði ein stelpurnar mæta Stjörnunni, Haukum og Val B. Sömu helgi mun 8. flokkur drengja spila í fyrstu umferð D-riðils í Hafnarfirði. Mótherjar strákanna verða Haukar, Stjarnan C, Valur B og Stjarnan C. Helgina þar á eftir, 31. október til 1. nóvember, fer svo fram Sambíóamótið þar sem iðkenndur KFÍ í minnibolta munu fjölmenna. Tíundi flokkur drengja, sem spilaði sína fyrstu umferð á Íslandsmótinu hér heima um daginn, keppa svo næst helgina 7.-9. nóvermber.

 

Það er því nóg um að vera í yngri flokka starfinu á næstu vikum.

Deila