Fréttir

Hugi efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2018

Körfubolti | 02.01.2019
Hugi Hallgrímsson, leikmaður Körfuknattleiksdeildar Vestra, efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar árið 2018.
Hugi Hallgrímsson, leikmaður Körfuknattleiksdeildar Vestra, efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar árið 2018.

Hugi Hallgrímsson, leikmaður körfuknattleiksdeildar Vestra, var á sunnudag útnefndur efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar árið 2018 við hátíðlega athöfn sem fram fór í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. Íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðarbæjar stendur árlega fyrir valinu á íþróttamanni ársins ásamt þeim efnilegasta. Elmar Atli Garðarson, leikmaður knattspyrnudeildar Vestra, var útnefndur íþróttamaður ársins og Skotíþróttafélag Ísafjarðar fékk hvatningarverðlaun bæjarins við sama tilefni.

Körfuknattleiksdeildin tilnefndi Huga, sem fæddur er árið 2002, í hóp efnilegustu íþróttamanna Ísafjarðarbæjar og Nemanja Knezevic sem íþróttamann ársins. Í rökstuðningi deildarinnar með tilnefningu Huga sagði: "Hugi Hallgrímsson er ungur og efnilegur körfuknattleiksmaður sem er í fremstu röð í sínum aldurshópi á landsvísu. Hann spilar hvort tveggja með drengjaflokki og meistaraflokki karla auk þess að hafa verið fastamaður í yngri landsliðum á vegum KKÍ. Þrátt fyrir ungan aldur er Hugi lykilleikmaður í meistaraflokki karla sem háir baráttu meðal efstu liða í 1. deild. Hann æfir vel og samviskusamlega með félagsliði sínu auk þess sem hann stundar nám á afreksbraut MÍ. Með metnaði sínum og dugnaði er hann öðrum fyrirmynd."

Það er mikil heiður fyrir ungan íþróttamann að fá viðurkenningu af þessum toga frá bæði íþróttafélaginu og sveitarfélaginu sínu og mikil hvatning til áframhaldandi góðra verka. Jafnframt er útnefning Ísafjarðarbæjar rós í hnappagat körfuknattleiksdeildarinnar sem færir Huga að sjálfsögðu innilegar hamingjuóskir af þessu ánægjulega tilefni.

Deila