Fréttir

Ingólfur fékk silfurmerki og Birna endurkjörin í stjórn KKÍ

Körfubolti | 19.03.2019
Ingólfur Þorleifsson tekur við silfurmerki KKÍ af Hannesi Jónssyni formanni og Guðbjörgu Norðfjörð varaformanni KKÍ.
Ingólfur Þorleifsson tekur við silfurmerki KKÍ af Hannesi Jónssyni formanni og Guðbjörgu Norðfjörð varaformanni KKÍ.
1 af 3

Fulltrúar frá Körfuknattleiksdeild Vestra sóttu þingi Körfuknattleikssambands Íslands síðastliðinn laugardag en þingið er haldið á tveggja ára fresti. Segja má að Ísfirðingar hafi verið nokkuð áberandi á þinginu. Ingólfur Þorleifsson, formaður Kkd Vestra var sæmdur silfurmerki KKÍ en alls voru níu sjálfboðaliðar sæmdir þessu merki á þinginu. Þar á meðal var einnig Ísfirðingurinn Sara Pálmadóttir sem hefur um árabil starfað innan vébanda Hauka í Hafnarfirði en hóf körfuboltaferlinn með KFÍ. Birna Lárusdóttir var endurkjörin í stjórn KKÍ en hún hefur setið í stjórn sambandsins frá 2017. Þá má geta þess að Ísfirðingurinn Ingi Þór Ágústsson, stjórnarmaður í  ÍSÍ, var þingforseti auk þess sem Ingólfur Þorleifsson stýrði alsherjarnefnd þingsins og Ingi Björn Guðnason laga- og leikreglnanefnd.

Góður andi var á þinginu og almennur samhugur. Nokkrar umræður spunnust um tillögu sem fjárhagsnefnd lagði fyrir þingið. Einkum var rætt um þann hluta tillögunnar sem snýr að því að gefa KKÍ heimild til að beita félög sem ekki standa í skilum við sambandið viðurlögum sem þegar eru í regluverki þess. Þessi hluti tillögunnar var samþykktur með handauppréttingum, ásamt hækkun á félagaskiptagjöldum íslenskra leikmanna og þeirri breytingu að greiðslur til dómara fari nú í gegnum sambandið. Fjórði hluti tillögu fjárhagsnefndar var hinsvegar umdeildari en hann fólst í verulegri hækkun leikheimildargjalds fyrir erlenda leikmenn. Þessari atvkæðagreiðslu þurfti að vísa í leynilega kosningu og var hún samþykkt með litlum mun.

Fulltrúar Vestra og HSV á þinginu voru Heiðrún Tryggvadóttir, Ingi Björn Guðnason (HSV), Ingólfur Þorleifsson, Yngvi Páll Gunnlaugsson og Sveinn Rúnar Júlíusson.

Deila