Fréttir

''Is this a joke?'' Af Skálarvíkurhlaupinu mikla.

Körfubolti | 06.10.2013
Strákarnir mættir í Skálavík.
Strákarnir mættir í Skálavík.
1 af 7

Þeir vissu að það var útihlaup en þeir vissu ekki hvað Birgir Örn þjálfari hafði í huga fyrir þá. "Is this a joke?", spurði Jason gáttaður á laugardaginn þegar búið var að skutla meistaraflokki karla yfir í Skálavík og þeim var sagt að hlaupa yfir til Bolungarvíkur. En þetta var sko ekkert grín og hópurinn lagði af stað yfir fjall, öslandi skaflana í vetrarríkinu á Skálavíkurheiði. Á leiðinni biðu strákanna ýmsar þrautir til að leysa, s.s. eins og að ýta bílunum sem þeir höfðu komið með. Þannig komst virðulegur formaður KFÍ hvorki lönd né strönd á sínum ameríska eðaljeppa og þurfti heilt körfuboltalið til að koma honum yfir heiðina. Körfuboltahetjurnar leystu allar þessar þrautir með sóma og skiluðu sér allir sem einn í heita pottinn í sundlauginni í Bolungarvík. Þjálfarinn verðlaunaði þá svo með því að bjóða þeim heim í ítalskan málsverð. Og það var nú meira en að segja það því að þessir piltar voru SVANGIR eins og soltin úlfahjörð eftir afrek dagsins. Þau Sigrún og Birgir Örn kipptu sér ekki upp við það og matreiddu ofan í hópinn eins og ekkert væri, svona fyrir utan smá stirðleika í þjálfaranum eftir hlaupið. Þessari æfingu gleyma menn væntanlega ekki í bráð.

Deila