Fréttir

Ískaldir á Ásvöllum

Körfubolti | 29.10.2012
1 af 2

Stórlið KFÍ-b lagði land undir fót á helginni og hélt alla leiðina til Hafnarfjarðar þar sem þeir mættu heimamönnum og núverandi meisturum Hauka í B-liða deild karla. Í hópi Ísfirðinga í leiknum voru margir af efnilegustu leikmönnum KFÍ í gegnum árin, sem ekkert varð svo úr, í bland við léttari og frárri leikmenn af Justin Bieber kynslóðinni.

 

Ef einhverjir héldu að í B-deildinni væri spilaður hægur göngubolti þá var sá miskilningur leiðréttur strax í byrjun. Haukamenn spiluðu hraðan og hnitmiðaðan bolta og ef menn vissu ekki betur þá mætti halda að þeir æfðu einhvað annað en bara að skjóta á æfingum.

 

Á meðan Haukamenn höfðu greinilega tekið daginn snemma og fengið sér lýsi fyrir leik þá voru Ísfirðingar enn með stýrurnar í augunum en leikurinn hófst kl 10:45 á laugardegi, sem er eins og allir vita alveg einstaklega ókristilegur tími í augum flestra. Haukar áttu því ekki í miklum erfiðleikum með hálf-sofandi leikmenn Ísfirðinga og höfðu örugga 53-24 forustu í hálfleik.

 

Í seinni hálfleik mætti allt annað KFÍ lið til leiks en Ísfirðingar, uppfullir koffíni og sykri, skoruðu 9 fyrstu stig leikhlutans á meðan þeir lokuðu miðjunni varnarmeginn og mönuðu Haukamenn í að skjóta fyrir utan. En þrátt fyrir ágæta spilamennsku í síðustu tveimur leikfjórðungunum þá dugði það ekki til og Haukar unnu verðskuldaðan 86-61 sigur.

 

Í samtali við vefinn hafði Neil Shiran Þórisson, annar af þjálfurum B-liðsins, þetta að segja:

 

"Liðið hefur æft stutt saman með allan hópinn og eru drengirnir ennþá að læra hvor á annan. Þetta lofar samt góðu og eru ungu strákarnir að fá mjög mikilvægar mínútur í bland við þá eldri sem á eftir að borga sig fyrir okkur þegar á líður.

Við eigum þó mikið inni og þetta er enginn endir. Nú þarf bara að leggja þennan inn á bókina miklu og einbeita sér að næsta leik."

 

Þess má geta að þessi ummæli Shirans eru tekinn beint úr bókinni 101 afsökun fyrir þjálfara sem fæst í öllum betri bókabúðum.

 

Hinn helmingur þjálfarateymis B-liðsins, Sturla Stígsson, vildi hins vegar ekkert tjá sig um úrslitin þar sem að hans sögn bæri hann einungis ábyrgð á sigurleikjum.

 

Næsti leikur KFÍ-b verður 10. nóvember næstkomandi og gera menn sér vonir um að þeir lykilleikmenn sem ekki fengu bæjarleyfi frá konunum á helginni verði með í það skiptið.


Stigaskor

KFÍ: Jón Kristinn 17, Magnús 14, Sturla 8, Shiran 8, Gunnlaugur 7, Daníel 5, Sævar 2.

 

Haukar: Elvar Steinn 35, Emil Örn 16, Arnar Hólm 10, Daníel Örn 10, Gunnar 7, Haraldur Örn 5, Gunnlaugur Már 2.

 

Myndbrot frá leiknum

 

Myndasafn

Deila