Fréttir

Íþróttamaður ársins 2013 hjá KFÍ - Jón Hrafn Baldvinsson

Körfubolti | 06.01.2014

Það er stjórn KFÍ mikil ánægja og heiður að útnefna Jón Hrafn Baldvinsson íþróttamann ársins 2013 hjá KFÍ og tilnefna hann jafnframt til vals á íþróttamanni Ísafjarðarbæjar 2013.

 

Eftir frækinn 1. deildarmeistaratitil og þau tvö tímabil sem KFÍ hefur spilað í efstu deild körfuboltans hefur Jón Hrafn Baldvinsson sýnt og sannað að þar fer afreksíþróttamaður og einstakur liðsfélagi.  Enda er hann fyrirliði meistaraflokks og einn þeirra sem draga vagninn fyrir félagið. Helstu einkenni Jóns Hrafns eru sigurvilji og baráttugleði sem hrífa liðsfélaga og alla þá sem hafa fylgst með honum. Hann er máttarstólpi í liði KFÍ og góð fyrirmynd sem fær þá yngri til að leggja harðar að sér á æfingum og í kappleikjum.

 

Jón Hrafn byrjaði að æfa körfubolta 12 ára gamall í KR, varð 2. deildarmeistari með Laugdælum og 1. deildarmeistari með KFÍ auk spilar meðal þeirra bestu í efstu deild í dag. Jón Hrafn er ávallt tilbúinn að legga sitt af mörkum til félagsstarfs KFÍ og sinna þeim verkefnum sem honum eru falin. Hann vinnur á Endurhæfingardeild heilbrigðisstofnunar Vestfjarða sem er þakklátt og gefandi starf.  Loks má geta þess að Jón Hrafn á ættir að rekja til Hornvíkur þar sem Frímann Haraldsson og Hallfríður Finnbogadóttir, langafi og langamma hans, bjuggu.

 

 

Deila