Fréttir

KFÍ lýkur keppni í Lengjubikar karla

Körfubolti | 28.09.2015
Florijan Jovanov. Mynd: Ingvi Stígsson
Florijan Jovanov. Mynd: Ingvi Stígsson

KFÍ lauk keppni í Lengjubikar karla með tapi fyrir úrvalsdeildarliði Grindavíks í gær. Grindvíkingar höfðu fyrir leikinn tryggt sér sigur í D-riðli bikarsins og mæta Stjörnunni í 8. liða úrslitunum.

 

KFÍ varð fyrir áfalli strax á upphafsmínútum leiksins þegar leikstjórnandi liðsins, Daníel Þór Midgley, þurfti að fara af velli vegna meiðsla. Leikstjórnandastaðan hjá KFÍ virðist því vera eitt hættulegasta starfið á Íslandi því allir fimm leikstjórnendur liðsins, þeir Daníel, Kjartan Steinþórsson, Nebojsa Knezevic, Hákon Ari Halldórsson og Pance Ilievski, eru frá vegna meiðsla og því skal engan undra að nokkrar svitaperlur hafi myndast á enni framherjans Florijan Jovanov þegar honum var tilkynnt að hann væri nýji leikstjórnandi liðsins.

Florijan komst þó vel frá sínu og var stigahæsti maður vallarins með 21 stig auk þess sem hann tók 9 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Hann slapp þó ekki frá leikstjórnandabölvuninni því seint í leiknum fékk hann högg á andlitið og er mögulega nefbrotinn.

Þrátt fyrir mikla baráttu og bættan leik hjá KFÍ að þá fóru leikar svo að lokum að Grindvíkingar sigruðu örugglega 64-104. Næsti leikur KFÍ er 16. október þegar liðið mætir Þór Akureyri í 1. deild karla.

 

Stigaskor KFÍ: Florijan Jovanov 21, Jóhann Friðriksson 11, Gunnlaugur Gunnlaugsson 10, Nökkvi Harðarson, 9, Björn Jónsson 9, Helgi Ólafsson 6

Tölfræði leiksins

Deila