Fréttir

KFÍ mótmælir drápi lukkudýrs félagsins!

Körfubolti | 07.06.2008
Það var alíslenskt byrjunarlið sem tók 2ja stiga skot á tvífara lukkudýrs KFÍ.
Það var alíslenskt byrjunarlið sem tók 2ja stiga skot á tvífara lukkudýrs KFÍ.

KFÍ harmar að nauðsynlegt hafi verið að fella ísbjörninn í Skagafirði fyrr í vikunni. Spyr KFÍ hvort ekki hefði mátt þyrma lífi bangsa?

Margir félagsmanna telja að þarna kunni lukkudýr félagsins að hafa verið á ferðinni. Að minnsta kosti er sláandi svipur með því og bjarndýri þessu sem sést á fréttamyndum frá þessu atviki. Sömu aðilar telja að hugsanlegt kunni að vera að lukkudýrið, sem fór reyndar á eitthvað flakk fyrir fáeinum árum, hafi hreinlega verið á heimleið.

Ef þessi kenning á við rök að styðjast er það auðvitað enn kaldranalegra að bangsi hafi látið lífið í hlíðum Tindastóls í Skagafirði. Þeir sem eru hvað sárastir vegna þessa spyrja, hvað næst fyrst lukkudýrið er ekki látið óáreitt?

KFÍ mun væntanlega íhuga réttarstöðu sína í málinu og t.d. hvort ekki sé eðlilegt að gera kröfu á hendur Umhverfisráðuneytinu um bætur og hið minnsta að fá björninn okkar aftur uppstoppaðann. Það væri sárabót fyrir hann að fá að prýða íþróttahúsið okkar góða, Ísjakann. Þar gæti hann fengið að vera óáreittur og stoltur um ókomna tíð.

Deila