Fréttir

KFÍ sigur á IE liði Hauka í Lengjubikarnum

Körfubolti | 31.10.2011
Liðsheild Ehf
Liðsheild Ehf

KFÍ strákarnir lögðu í langferð í dag og keyrðu til Hafnarfjarðar þar sem þeir öttu kappi gegn Haukum í Lengjubikarnum. Þetta var skrautlegur leikur og ekki var að sjá að við værum að landa sigri. Í þriðja leikhluta lentum við 13 stigum undir og misstum Ara Gylfason úr húsi fyrir mótmæli sem áttu alveg við rök að styðjast þar sem brotið var illa á honum en ekkert dæmt. En við þetta mótlæti hertu strákarnir sig og náðu að komast inn í leikinn með góðu spili.

 

Grunnurinn að sætum útisigri í svona baráttuleik liggur í sterkri liðsheild sem er að mótast en á loka mínutunum voru dráttarklárar liðsins þeir: Kristján Pétur, Sir Craig,  Siggi Haff, Jón Hrafn og Chris.  Þegar upp var svo staðið hafði KFÍ landað góðum sigri og lokatölur 76-79.

 

Leikurinn var í járnum fyrstu tvo leikhlutana og skiptust liðin á að hafa forustu, en Haukar komust yfir þegar 9 sekúndur voru eftir og leiddu í hálfleik: 35-34.  

Þriðji leikhluti var skelfilegur af okkar hálfu. Við tókum allt of mörg ótímabær skot sem Haukarnir nýttu sér og áður en Pétur gat tekið tíma var staðan allt í einu orðinn 68-55 og til að toppa þetta var Ara vikið úr húsi eftir að það var brotið illa á honum en "báðir" dómarar leiksins sáu ekki neitt  athugavert og fyrir vikið fauk í pilt og hann rekinn í sturtu. 

 

Þegar þarna var komið við sögu, sögðu piltarnir úr vestrinu einfaldlega: "hingað og ekki lengra" og snéru bara dæminu við og söltuðu Haukana með einu kraftmiklu 24-10 "Skeiðarárhlaupi", og föðmuðust illa í leikslok. Á þessum lokakafla KFÍ hlaupsins foru þeir heldur illa með gestgjafana og í vissum óeiginlegum skilningi var ástandið á Ásvöllum líkt og eftir jökulhlaup og er það mál manna að nú þurfi björgunarstarf heimamanna að hefjast.

 

Það er merkilegt við þennan leik að við spiluðum aftur illa í sókn mesta allan leikinn, en vörnin er alltaf lykilinn og Pétur Már þjálfari kann að setja tappann á gosið.

 

Nú höfum við leikið tvo leiki Í Lengjubikarnum. Keppni sem var ákveðið að manna alla leiki með svokölluðu þriggja dómara kerfi. Rétt að taka fram að okkur finnst það gott framtak. En við höfum ekki enn séð þriðja dómarann. Og er það skrítið þegar við sjáum að í öllum öðrum leikjum í kvöld voru þeir þrír. Hvað er það sem veldur þessu? Vafalaust á þetta sér allt einhverjar eðilegar skýringar, og t.d. grunar okkur að það hafi ekki verið hægt að manna þriðju stöðuna. Það vekur vissar áhyggjur um hvort þessi metnaðarfulla áælun (3 dómarar á öllum leikjum í efstu deildum) sé framkvæmanleg á stórasviðinu.  Einnig hlýtur að vera erfitt fyrir lið eins og KFÍ sem virðist ætla að missa af tækifærinu að keppa með 3ja dómara teymi, og meta ágæti fyrirkomulagsins endanlega, eins og þegar menn þurfa að kjósa um t.d. slíka tillögu á KKÍ þingi. Trúi ekki öðru en að um þetta gildi, allt er þá þrennt er!?

 

Þetta var sigur liðsheildarinnar og erum við greinilega á réttri braut með liðið.  Ætlum ekki að taka neinn einstakan leikmnann út að þessu sinni heldur útnefna: ónefnda varnarmanninn sem mann leiksins, það voru nær allta 5 slíkir inni á vellinum hverju sinni í KFÍ búningi!

 

Stigin í kvöld: Chris 24, stig 12 fráköst. Kristján Pétur 18 stig, 3 fráköst. Ari 16 stig, 6 fráköst. Craig 9 stig, 8 fráköst og 10 stoðsendingar. Jón Hrafn 7 stig, 8 fráköst. Siggi Haff 3 stig, 4 fráköst. Hermann Óskar 2 stig, 1 frákast.

 

Hér eru myndir frá leiknum sem myndasmiður karfan.is tók og þökkum við kærlega.

Deila