Fréttir

KR sluppu með skrekkinn gegn KFÍ

Körfubolti | 25.09.2013
Mynd: Jón Björn/Karfan.is
Mynd: Jón Björn/Karfan.is
Ísfirðingar mættu í DHL-höllina í átta liða úrslitum Lengjubikarsins í kvöld. Gestgjafarnir sigruðu D-riðil örugglega með fullu húsi stiga en Ísfirðingar höfnuðu í öðru sæti C-riðils með átta stig af tólf mögulegum.
 
Flestir hafa vafalaust búist við nokkuð þægilegum leik fyrir taplausa KR-inga en Jason Smith gaf tóninn strax í byrjun með fögrum þrist. Gestirnir frá Ísafirði mættu mjög ákveðnir til leiks og ætluðu sér greinilega að gera meira en bara að vera með. Sóknarleikur þeirra gekk með ágætum og voru með nefbroddinn á undan heimamönnum mestallan fyrsta leikhlutann. Jason sá mikið um stigaskorun gestanna en reyndi kannski á köflum aðeins of mikið einn síns liðs. KR-ingar fengu framlag frá fleirum og það skilaði sér í eins stigs forystu 23-22 eftir fyrsta leikhluta.
 
Jason fékk sína þriðju villu rétt um miðbik annars leikhluta og fékk sér sæti á bekknum. Ekki góð tíðindi fyrir Ísfirðinga en þeir sýndu að þeir eru ekki eins manns lið og áttu í fullu tré við heimamenn. Jafnt var á öllum tölum allan leikhlutann en KR-ingar enduðu hann sterkt með fimm snöggum stigum frá Brilla og leiddu 45-43 í hálfleik. Bæði lið án vafa frekar ósátt með varnarleikinn hjá sér í fyrri hálfleik.
 
Liðin héldu áfram að skiptast á körfum í þriðja leikhluta. KR-ingar létu bresta á með svæðisvörn um miðjan leikhlutann en Ísfirðingar létu það ekki slá sig út af laginu og settu ágæt skot niður. Á sama tíma var sókn KR-inga ekki upp á marga fiska, misstu boltann klaufalega í nokkur skipti og gestirnir litu vel út með fjögurra stiga forskot, 60-64, að loknum þriðja leikhluta.
 
KR-ingar héldu áfram í svæðisvörn í fjórða leikhluta og nú byrjaði hún að skila árangri. Gestirnir áttu í miklu basli með að koma sér í grennd við körfuna og margar sóknir enduðu með múrsteinakasti frá þriggja stiga línunni. KR-ingar stálu einnig nokkrum boltum og byrjuðu leikhlutann með 7-0 spretti. Nú voru það heimamenn sem voru með nefbroddinn á undan en Ísfirðingar börðust eins og ljón og hleyptu KR-ingum ekki á neitt flug. Það var ekki fyrr en um 2 og hálf mínúta lifði leiks sem heimamenn komu sér í vænlega stöðu með góðri hjálp Jason. Hann tapaði boltanum illa í sókninni og fékk í kjölfarið sína fimmtu villu. Agaleg tíðindi fyrir gestina og KR-ingar settu 2 á línunni og komu sér í 76-71 forystu. Einni og hálfri mínútu síðar gerði Ólafur Ægisson nokkurn veginn út um leikinn með risavöxnum þrist, 79-73 og rúm ein mínúta eftir. Gestirnir reyndu hvað þeir gátu en snögg fimm stig frá Mirko á lokamínútunni dugðu ekki til. Það fór vel á því að fyrrnefndur Óli gerði endanlega út um leikinn með tveimur vítum í blálokin, niðurstaðan 84-80 sigur heimamanna.
 
Ísfirðingar komu sennilega mörgum á óvart í þessum leik og sýndu fína takta. Jason Smith endaði leik með 23 stig og 5 stoðsendingar og Mirko var með 21 stig og 11 fráköst. Hraunar og Jón Hrafn skiluðu einnig miklu til liðsins með 12 stig hvor og Jón með 9 fráköst að auki.
 
KR-ingar fengu nokkuð jafnt framlag frá allnokkrum leikmönnum, Brynjar skoraði 19, Darri 16 og tók 7 fráköst, Helgi setti 15 ásamt Óla sem átti mikilvægustu körfu leiksins. Pavel var samur við sig og setti 9 stig, tók 10 fráköst og átti 5 stoðsendingar.
 
Umfjöllun: KV/Karfan.is
 
Tengt efni
Deila