Fréttir

Karlaliðið mætir ÍA og kvennaliðið Stjörnunni

Körfubolti | 24.10.2014

Karlalið KFÍ mætir ÍA hér heima í kvöld klukkan 19:15. Skagamenn hafa spilað tvo leiki í deildinni til þessa. Í fyrstu umferð töpuðu þeir á útivelli gegn Breiðablik en í annarri umferð sigruðu þeir Þór frá Akureyri heima. Okkar menn hafa ekki farið nógu vel af stað eins og óþarfi er að tíunda svo nú er mikilvægt að snúa bökum saman og styðja strákana í því að landa fyrsta sigrinum í deildinni.

 

Steini Muurikka mun fíra upp í pönnunni og bjóða upp á ljúffenga hamborgara. Það verður fírað upp í grillinu kl. 18:30 svo það er óþarfi að eyða tíma í að elda heima fyrir leik.

 

Þeir sem ekki sjá sér fært að mæta á Torfnes geta að sjálfsögðu fylgst með leiknum í beinni á KFÍ-TV.

 

Á sunnudaginn kl. 14:30 mætir kvennalið KFÍ svo Stjörnunni í sínum fyrsta heimaleik á keppnistímabilinu. KFÍ telfdi ekki fram kvennaliði á síðasta tímabili svo það eru mikil gleðitíðindi að nú sé aftur kominn á fót meistaraflokkur kvenna. Það er því full ástæða til að styðja dyggilega við bakið á stelpunum í þessum fyrsta heimaleik og hvetja þær áfram.

 

Á báðum leikjunum verða til sölu árskort á alla heimaleiki KFÍ, bæði hjá meistaraflokki karla og kvenna. Það er því um að gera að tryggja sér kort fyrr en seinna.

Deila