Fréttir

Kennlustund í körfubolta á Jakanum

Körfubolti | 15.11.2010 KR komu, sáu, sigruðu "and then some" á Jakanum í kvöld. Lokatölur 98-143, já þið eruð að lesa rétt 143 stig fengum við í griillið á okkur og þökkuðum pent fyrir. Varnarleikur KFÍ var gjörsamlega týndur og tröllum gefinn og þótt að KR hafi spilað frábærlega, þá fengu þeir fína hjálp frá strákunum í KFÍ. 

Leikurinn var hraður frá upphafi leiks og náðu KR 5-0 áður en við svöruðum fyrir okkur og náðum við að halda okkur inn í leiknum 5-6 og 6-8, en svo fór allt til fjandans. Við fórum að keyra upp hraðann gegn KR og það er algjört "no, no" Þeir eru einfaldlega svo góðir í að svara í sömu mynt og á annari hæð miðað við okkur. Þeir komust í 9-23, 11-27 og 16-30 áður en við náðum smá rispu og fjórðungurinn endaði 26-35.

Annar leikhluti byrjaði eins hjá KR og náðu þeir 26-40 og 29-48 og KFÍ algjörir áhorfendur þegar þarna var komið. En með góðri baráttu og náðum að minnka forskotið og hálfleikstölur 56-68. Og svona tölur eru ekki venjulegar í hálfleik á Jakanum.

En ef að áhorfendur héldu að KR færi í eitthvað afslappað "mode" eftir hálfleik, þá var það gjöramlega afsannað á nokkrum mínútum. KR komu eins og mannýg naut og völtuðu yfir KFÍ í þriðja leikhluta og staðan 74-109 þegar fjórði leikhluti hófst.
Þegar þarna var komið voru strákarnir úr vesturbænum búnir að setja upp þvílíka skotsýningu og voru á tíma með 80% þriggja stiga nýtningu.

Til að gera langa sögu stutta og hlífa sem flestum við leiðinlegum pistli hér, þá voru KR mörgum númerum of stórir í kvöld og sýndu af hverju þeim er spáð ofarlega í IE deildinni. KFÍ hins vegar þurfa að horfa á þennan leik og nánast taka skriflegt próf til að sjá hvort þeir geti svarað hvernig á að spila vörn.


Í liði KR voru allir frábærir, en Pavel var stórkostlegur. hann var með 25 stig, 18 fráköst og 12 stoðsendingar og klárlega maður leiksins. Marcus Walker var einnig mjög góður, en það er varla hægt að draga fáa úr liðinu og hæla þeim sérstaklega. Allt KR liðið var frábært og þó að leiðinlegt sé að verða vitni að svona tapi, þá er samt gaman að sjá góðan körfubolta spilaðan og það sýndu drengirnir hans Hrafn Kristjánssonar í kvöld.

Hjá döpru liði KFÍ þá var Nebosja, Craig, Pance og Ari skástir, en liðið var dapurt og það vita þeir. Það gladdi augað að sjá ungu strákana í restina, þá Sigmund, Jón Kristinn og Guðna Jr. sem gerði sér lítið fyrir og setti 4 stig á rúmri mínútu.

KFÍ liðið er mikið betra en þeir sýndu í kvöld og nú er bara að senda menn út af örkinni og finna Björn bónda og fá hann til að koma liðinu á beinu brautina. Þetta er bara einn leikur og það þýðir ekkert að dvelja lengi við þennan ósigur. 

Hér er tölfræðin úr leiknum

Áfram KFÍ
Deila