Fréttir

Komnir heim reynslunni ríkari

Körfubolti | 25.09.2011
Góð æfingaferð í alla staði
Góð æfingaferð í alla staði

Meistaraflokkur KFÍ fór í örferð suður og spilaði tvo æfingaleiki gegn Borgarnesi og Hamar. Þessir leikir voru liður í að sjá hvar við stöndum í æfingaferlinu og sjá hvað má bæta fyrir mótin í vetur. Fimmtán manna hópur fór í ferðina og fengu allir að spila.

 

Fyrsti leikur okkar var gegn Borgarnesi og vannst hann 99-57. Þess ber þó að geta að Borgnesingar eiga eftir að fá báða sína erlendu leikmenn og var Pálmi líkt og Pétur að leyfa öllum ungu strákunum að spreyta sig. Við áttum fína spretti og var sérstaklega gaman að sjá baráttuna í liðinu og þriggja stiga nýting var góð eða 21/13.  Stigaskor var sem hér segir: Ari 19, Kristján 19, Chris 13 (15 fráköst og 5 varin skot), Craig 15, Gautur 6, Leó 6, Nonni 6, Jón Hrafn 6, Sævar 4, Siggi Haff 4, Hlynur 4, Simmi 1.

 

Seinni leikur okkar var gegn Hamri og vorum við lengi að komast í gang og duglegir strákar í Hamri báru enga virðingu fyrir okkur. Gaman er að sjá að Raggi Nat. er kominn af stað hjá Hamri en hann meiddist í haust.  Eftir mikinn klaufaskap af okkar hálfu í vörn og sókn tókum við af skarið í restina og unnum fjórða leikhluta 34-4 og tókum leikinn 76-46. Hamar er ekki kominn með sinn erlenda leikmann og einnig vantaði Svavar Pál í liðið og munar um minna. Pétur þjálfari og Lalli þjálfari Hamars leyfðu öllum að spila og er það vel því einhvern tímann verða ungu strákarnir að fá reynslu. Stigaskor var sem hér segir: Chris 21 stig (18 fráköst, 6 varin skot), Craig 19, Jón Hrafn 11, Kristján 10, Ari 10, Siggi Haff 3, Simmi 2.

 

Það er langt í land hjá okkur, en erum þó alveg á þeim stað sem Pétur Már þjálfari taldi að drengirnir væru á. Það sem hann var að reyna fá út úr þessum leikjum var að sjá hvar menn væru komnir í varnar og sóknarkerfum og var hann fljótur að kippa mönnum út af ef þeir voru ekki með sitt á hreinu og á það við með alla. Nú fer restin af æfingum fram að móti að taka frá þessum leikjum lexíu og bæta það sem betur mátti fara. Og eitt er á tæru. Það verða engin frí gefin.

 

Það sem best var við þessa ferð var að sjá hve góður liðsandi er í hópnum og það er aldrei sjálfgefið. Í lokinn viljum við þakka Borgnesingum og Hvergeringum fyrir góðar móttökur og gestrisni. Og kærar þakkir til drengjanna að leggja á sig þessa erfiður ferð.

Deila