Vestri mun eiga fulltrúa í pottinum þegar dregið verður í undanúrslit bikarkeppni KKÍ en drengirnir í 9. flokki Kkd. Vestra tók á móti Breiðabliki í leik sem fram fór síðastliðinn laugardag og unnu öruggan sigur 82-39.
Vestri féll um riðil í síðustu umferð Íslandsmótsins, úr A í B, en Breiðablik tók sæti þeirra eftir sigur í B- riðli og því mátti fyrirfram búast við jafnari leik en raunin varð. Lið Vestra skipa Hilmir og Hugi Hallgrímssynir, Egill Fjölnisson, Blessed og James Parilla og Friðrik Vignisson. Þjálfari þeirra er Yngvi Páll Gunlaugsson, yfirþjálfari Vestra.
Vestrastrákar hófu leikinn af krafti, skoruðu fyrstu sex stig leiksins og leiddu snemma 8-2. Blikar náðu að jafna leikinn 8-8 en aftur tóku heimamenn á sig rögg og leiddu 22-13 eftir fyrsta leikhluta þar sem stigaskorið dreifðist á fjóra leikmenn Vestra.
Heimamenn héldu frumkvæðinu í öðrum leikhluta, héldu gestunum í aðeins átta stigum sem telst mjög gott. Vörnin var góð og sóknin ekki síðri í leikhlutanum og fóru Hugi, Hilmir og Egill fyrir sókninni á þessum tímapunkti en allir þrír voru boðaðir til landsliðsæfinga milli jóla og nýárs og sjálfstraustið greinilega mikið. Staðan í hálfleik var 36-21 og því verðugt verkefni fyrir Blika að vinna sig inn í leikinn.
Vonarneisti Blika um endurkomu var snögglega kæfður í þriðja leikhluta. Vestri skoraði fyrstu 13 stig hálfleiksins áður en Blikar komust á blað og í raun aðeins 3 stig eftir það í fjórðungnum. Hugi Hallgrímsson fór hamförum í leikhlutanum og skoraði 17 af 19 stigum Vestra sem er eftirtektarvert fyrir þær sakir að ekkert af stigunum kom frá vítalínunni! Vörnin var þétt og höfðu Blikar engin svör við ákveðni Vestradrengja sem ætluðu sér svo sannarlega í undanúrslit.
Fjórði leikhluti var í raun formsatriði fyrir heimamenn. Varnarleikurinn var enn til fyrirmyndar og stigaskor dreifðist á fleiri leikmenn. Blikum til hróss þá gáfust þeir ekki upp og börðust allt til enda þrátt fyrir mikinn mun. Lokatölur 82-39.
Óhætt er að segja að strákarnir í Vestra hafi spilað einn sinn besta leik í vetur og var oft og tíðum hrein unun að fylgjast með þeim, bæði í vörn og sókn. Sannarlega frábær frammistaða.
Stigskor: Hugi 36, Hilmir 25, Egill 17, Blessed og Friðrik 2 stig hvor.
Vestri er fyrsta liðið til þess að tryggja sig inn í undanúrslit en framundan eru leikir milli annarra liða í 8-liða úrslitum. Leikir Keflavíkur og Vals, KR og Fjölnis og Grindavíkur og ÍR munu fara fram á næstu dögum. Fréttaritarar Vestra munu fylgjast með og flytja fréttir af gangi máli.
Deila