Fréttir

Körfuboltabúðir 2011 - Viðtal: Sævar Harðarson

Körfubolti | 09.06.2011

Sævar Harðarson kenndur við Skipavík frá Stykkishólmi er ekki alls ókunnugur körfuboltastarfinu og hann er nú staddur á Ísafirði að fylgja hvorki fleiri né færri en þremur af börnum sínum í Körfuboltabúðir KFÍ (geri aðrir betur!).  Hann var auðvitað gripinn í stutt viðtal við fyrsta tækifæri.  Við gefum honum orðið...

 

Allgjör snilld þessar búðir og skipulagning fær hæstu einkunn hjá mér.  Krakkarnir eru hæst ánægðir og koma alltaf þreyttir heim að kveldi.  Aðstaðan á heimavistinni er toppklassa og vil ég sérstaklega nefna þær Lúlú, Ellu og Dagný í mötuneytinu, en þetta hefur allt orðið til þess að okkur líður næstum eins og heima hjá okkur.

 

Þessar æfingabúðir eru gagnlegar fyrir krakkana og þau læra hér nýja hluti og aðferðir sem munu hjálpa þeim áfram.  Ég hef fylgst með körfuboltanum hjá yngri flokkum, ekki hvað síst, nú í all mörg ár og sé að einn aðal styrkur búðanna er þessi yfirferð grunnatriða íþróttarinnar og fagmennska þjálfaranna skín þar í gegn. Þessi þáttur í yngri flokka starfinu er mikilvægur og í raun ótrúlegt að við skulum ekki hafa byrjað fyrr á svona æfingabúðum.

 

Að lokum vil ég þakka ykkur fyrir þetta þjálfaranámskeið sem ég hef setið og held að margir íslensku þjálfararnir hefðu haft gott af því að gefa sér tíma til þess að koma og hlýða á þessa meistara frá mánudegi til fimmtudags. Mér varð það ljóst að vitringarnir þrír í Skipavík sem allt þykjast vita, eiga greinilega töluvert eftir ólært!

 

Fréttaritari KFÍ síðunnar ætlar að láta það vera að nefna nokkur nöfn í þessari síðustu aðdróttun Sævars en líklega átti hann við vinnufélaga sinn Davíð, Björgvin og Eyþór.  Þeir eru þó hér með boðnir velkomnir hingað að ári og geta þá jafnað við hann leikinn.

Deila