Fréttir

Körfuboltabúðir KFÍ 2009 - Veðurblíða á lokahófi og grill

Körfubolti | 13.06.2009
Grillað að loknum vel heppnuðum búðum.
Grillað að loknum vel heppnuðum búðum.
Eftir afhendingu verðlauna og sigurlauna var slegið upp veislu við suðurgafl íþróttahússins. Þar var búið að koma fyrir bekkjum og borðum. Þorsteinn Þráinsson grillaði leikandi létt ofan í alla gesti og aðstandendur. Boðið var upp á kryddleginn steinbít í boði Íslandssögu á Suðureyri. Einnig voru grillaðar pylsur á hefðbundinn hátt. Steinbíturinn var algjört lostæti og hurfu 10 kg fyrirhafnarlítið í svanga körfuboltakrakka.

Gestir nutu veðurblíðunnar á meðan borðhald stóð yfir. Krakkarnir fóru í körfubolta bæði inni og úti, eins og við var að búast. Að veislu lokinni voru allir sælir og sendum við í KFÍ velgjörðarmönnum okkar á Suðureyri bestu þakkir.

Það voru svo þreyttir en ánægðir krakkar sem héldu til sín heima eða upp á Vist. Á morgun munu KFÍ liðar standa í ströngu við tiltekt og lýkur þar með annasamri viku.
Deila