Fréttir

Körfuboltabúðir KFÍ 2011 - Æfingar hafnar!!!

Körfubolti | 05.06.2011
Ellert B. Schram fyrrv. forseti ÍSÍ í hópi góðra félaga
Ellert B. Schram fyrrv. forseti ÍSÍ í hópi góðra félaga
1 af 3

Fyrsta æfing búðanna hófst stundvíslega kl. 10:00 í morgun. Óhætt er að segja að veruleg eftirvænting hafi verið hjá krökkunum og flesta farið að klæja verulega í að komast í boltann. Hrafn, Nebojsa og Pétur hófu æfinguna á því að skipta í tvo hópa sem fóru svo í gegnum einfalda þrautabraut á tíma. Skipt var í lið og keppt nokkra leiki. Þeir Tony og Geoff mættu svo með morgunvélinni og slógust í hópinn fyrir lok æfingar.

 

Eftir þetta voru þjálfarnir komnir með nokkuð góða mynd af krökkunum í hópnum að þessu sinni. Að því loknu voru myndaðir fjórir hópar og reynt að raða eftir styrkleika og getu. Þannig fá allir þjálfun, kennslu og keppni við hæfi. Allt gekk þetta eins og í sögu og krakkarnir voru hress eftir fyrstu æfinguna þegar þau héldu í "mexikanskan" hádegismat a la Ellu og Lúlú í mötuneyti MÍ. Greinilegt að matarlystin hefur fylgt þeim í búðirnar!

 

Það var einstaklega skemmtilegt að fá innlit í morgun frá fyrsta gestinum sem var enginn annar en Ellert B. Schram fyrrverandi forseti ÍSÍ og með betri knattspyrnumönnum sem Ísland hefur alið. Hann var staddur hér á Ísafirði í fylgd með Pólýfónkórnum á tónleikaferðalagi og hafði borist til eyrna að búðirnar væru að hefjast. Ellert gaf þeim bestu einkunn og kunnum við honum þakkir fyrir. Óskum honum og félögum góðrar heimferðar.

Deila