Fréttir

Körfuboltabúðir KFÍ 2011 - Dagur 3

Körfubolti | 07.06.2011
Finnur og krakkarnir í hóp 1
Finnur og krakkarnir í hóp 1
1 af 4

Skipulag búðanna og æfinga, ætti að vera orðið nokkuð ljóst eftir lestur fregna síðustu daga og verður væntanlega lítlar breytingar þar á til loka þeirra.  Í morgun hófu hópar 1-3 æfingar kl. 08:00 og seinni æfing hjá þeim var svo kl. 16:00.  Hópur 4 mætti til leiks kl. 09:30 og svo aftur kl. 17:30.  

 

Æfingar gengu að sjálfsögðu vel og helstu atriði sem nú var farið yfir hjá hópum 2-4 voru varnarstaða og varnarleikur, samspil og boltahreyfing auk fleiri atriða, en þetta eru auðvitað ekki tæmandi listi. Á seinni æfingu dagsins færðu þjálfarar sig til á milli hópa og þannig tryggjum við það að krakkarnir séu útsettir fyrir fleiri en einum þjálfara allar búðirnar.  Þetta er gert til þess að þau kynnist mismunandi áherslum og fái vonandi enn meira út úr dvöl sinni hér en ella.

 

Finnur Stefánsson tók við hópi 1 í morgun, en hann er nýkominn af Norðurlandamóti yngri landsliðanna og náði tæplega að taka upp úr töskunum á milli ferða.  Finnur var samt ferskur og ekki að sjá ferðaþreytu á kappanum. Hann tók við að Pétri Má og hélt áfram með t.d. áherslu á knattrek sem er mikilvægt að tileinka sér á þessu stigi. Það voru sannarlega tvær góðar æfingar sem þessir krakkar tóku í dag.

 

Í kvöld hófst einstaklingskeppni í 3ja stiga og vítaskotum.  Yngstu krakkarnir kepptu í skotleik og vítaskotum.  Þetta voru tvær umferðir og verður svo keppt til úrslita síðar í vikunni.  Sigurvegarar verða svo heiðraðir við slit búða á laugardag.  Þetta má telja fulla dagskrá fyrir þennan dag og flestir tilbúnir að fara að hægja á sér að loknum erfiðum en góðum æfingum.  

 

Við nálgumst nú miðpunkt búðanna og margir munu fara að finna til þreytu.  Þótt gaman sé er álagið í æfingum og leikjum meira en þau eiga yfirleitt að venjast.  Við þær aðstæður er hvíld á milli æfinga mikilvæg, eins og áður hefur verið rætt og ef ekki er gætt að þessu eykst t.d. meiðslahætta.  Við höfum reyndar hingað til sloppið vel við meiðsli og ekkert alvarlegt komið upp á, þannig viljum við einmitt halda því.

Deila