Fréttir

Körfuboltabúðir KFÍ 2011 - Fyrirlestur Geoff Kotila

Körfubolti | 09.06.2011
Horfðu á boltann!
Horfðu á boltann!
1 af 4

Nú var röðin komin að Geoff Kotila, sem í upphafi kynnti fyrir áheyrendum hvernig hans ferill hófst sem þjálfari og lýsti á mjög svo fróðlegan hátt hvernig hann hefði lært m.a. af mistökum sínum og ekki síður lærimeisturum.  Geoff á langan og farsælan þjálfaraferil að baki svo hann hafði frá mörgu að segja á þessu sviði.  Hann ræddi um helstu reglur sem hann vinnur eftir við þjálfun og lýsti hvernig hann reyndi að byggja upp lið sín.  

 

Hann fjallaði um sóknarleik og hvernig skipulagi hann fylgir við undirbúning tímabils og bætti smám saman við kerfin.  Hann ræddi um hvernig óreiða (chaos/confusion) ríkti í leik og hann reynir að líkja einmitt eftir leikaðstæðum við þjálfun, þetta var mjög fróðlegur hluti erindis hans.  Þarna aðstoðuðu elstu leikmennirnir í búðunum eins og svo oft áður á þessu námskeiði.  Ekki er auðvelt að lýsa þessu nákvæmlega í jafn stuttu máli og við ætlum okkur hér á síðunni að þessu sinni, en það er rétt að undirstrika það að enginn hefði verið svikinn af því að hlýða á þennan kappa.

 

Að endingu fékk Geoff svo þá Hrafn, Tony og Pétur til þess að aðstoða sig.  Á einfaldan hátt sannfærði hann alla nærstadda að boltinn væri mikilvægasta sameiningartákn okkar og svo mikill örlagavaldur í lífi flestra að það yrði aldrei samt án hans.  Á þeim nótum lauk þjálfaranámskeiðinu og allir fóru frá borði nokkuð fróðari og endurnærðir. Það gladdi skipuleggjendur sérstaklega þegar þeir Nebosja, Tony og Kotila byrjuðu að ræða sín á milli og við nærstadda hversu mikið þeir hefðu lært af búðunum hingað til og samskiptum sín á milli og annarra þjálfara í þeim. En það er nákvæmlega eitt af markmiðum búðanna að stefna saman ólíkum þjálfurum, og skapa umhverfi og andrúmsloft samvinnu og samskipta, sem bætir okkur öll til lengri tíma.

Deila