Fréttir

Körfuboltabúðir KFÍ 2011 - Skráning hafin

Körfubolti | 30.03.2011 Talsvert af fyrirspurnum um skráningar hafa borist undanfarna daga.  Það er því ánægjulegt að geta greint frá því að skráning í æfingabúðirnar hefst frá og með deginum í dag.  Verð er óbreytt frá því í fyrra og er það ekki síðra ánægjuefni. 

Körfuboltabúðirnar sem hafa frá upphafi verið í náinni samvinnu við framkvæmdastjórn KKÍ, standa yfir í sjö daga.  Þær hefjast sunnudaginn 5. júní og lýkur að kvöldi laugardagsins 11. júní með lokahófi og verðlaunaafhendingu.  Verð fyrir þjálfun, gistingu og fullt fæði er 45000  samtals.  
Annars kostar gisting í 7 nætur 15000 og fullt fæði 12000. 
Öll verð eru sem sagt algjörlega óbreytt frá því í fyrra og er það okkur sérstakt ánægjuefni.

Tekið er á móti skráningum á netfangið: kfibasketball@gmail.com eða í síma 896-5111.  

Taka verður fram:  Nafn iðkenda
kennitölu
Forráðamaður, netfang og símanúmer
Félag (æskilegt en ekki krafist)
Hvað iðkandinn á að skrást í, það er: gisting/fæði/búðir
Einnig hvort iðkandi hafi sérþarfir (lyfjataka eða ofnæmi t.d.).

Við munum staðfesta pantanir með netpósti með frekari upplýsingum svo fljótt sem auðið verður.

Í ár verður faglegur metnaður jafnvel aukinn og miklar kröfur gerðar til þjálfara eins og vera ber.  Í fyrra byrjuðum við með minniboltahóp í æfingabúðunum sem tókst gríðarlega vel og í vetur fjölgaði mikið í þessum flokki.  Þess vegna verður lögð aukin áhersla á minniboltann, meðal annars með fjölgun þjálfara og æfingar verða tvisvar á dag líkt og hjá hinum eldri, en að sjálfsögðu miðaðar við líkamsburði þannig að enginn verði ofurliði borinn af þreytu.  Rétt er að taka fram að það er skilyrði að forráðamaður eða fararstjóri fylgi iðkendum í minnibolta (9-12 ára).

Undirbúningshópur búðanna mun í samvinnu með Unglingaráði KFÍ kynna Körfuboltabúðirnar sérstaklega fyrir KFÍ krökkunum og foreldrum þeirra í næstu viku og verður þá tekið við skráningum, þ.e. þeim sem ekki verða þegar búnar að berast. Það verður seint hægt að leggja nægilega mikla áherslu á það hversu mikilvægt það er við skipulagningu þessa verkefnis, að vita nokkurn veginn fjölda heimakrakkanna sem ætla að taka þátt.

Körfuboltabúðirnar hafa slegið í gegn síðustu tvö og það verður ekki gert nema með samstilltu átaki þeirra fjölmörgu sem lyftu því grettistaki við skipulagningu og undirbúning.  Við fullyrðum að lögð hefur verið enn meiri áhersla þetta árið á faglegu hliðina og gæði þjálfara munu tryggja okkur frábæra viku í júní sólinni.

Með körfuboltakveðju! Deila