Fréttir

Körfuboltadagur KFÍ á laugardaginn

Körfubolti | 02.09.2015

Hinn árlegi Körfuboltadagur KFÍ verður haldinn á laugardaginn kemur, 5. september og stendur frá 11-13. Dagurinn markar upphaf vetrartímabilsins í yngri flokkum félagsins en þar gefst krökkum á öllum aldri tækifæri til að kynna sér körfuboltaíþróttina, fara í skemmtilega leiki, spreyta sig á boltastöðvum og fá upplýsingar um æfingatíma vetrarins. Liðsmenn úr meistaraflokki karla ásamt þjálfurum yngri flokka sjá um að allir skemmti sér vel.

 

Í vetur verður boðið upp á æfingar fyrir börn allt frá fjögurra ára aldri og er æft í alls tíu flokkum, bæði stúlkna og drengja. Æft verður í þremur íþróttahúsum á svæðinu, á Torfnesi og Austurvegi á Ísafirði og í íþróttahúsinu í Bolungarvík.

 

Heitt verður á könnunni á laugardagsmorgun og eru foreldrar og forráðamenn hvattir til að koma með börnum sínum, fá sér kaffibolla í góðum félagsskap og kynna sér starfsemi félagsins. Hollar og góðar veitingar verða á hliðarlínunni og bjóðum við alla velkomna.

Deila