Menntaskólinn á Ísafirði endurvekur nú í haust afreksíþróttasvið við skólann og er hlutur körfuboltans þar ánægjulega stór. Alls eru 27 nemendur úr fimm íþróttagreinum skráðir á brautina, þar af 12 iðkendur frá körfuknattleiksdeild Vestra. Framtak MÍ er lofsvert enda gefur sviðið nemendum tækifæri til að samræma betur afreksástundun í íþróttum með krefjandi námi í menntaskóla.
Á heimasíðu MÍ segir: "Afreksíþróttasviðið hentar vel nemendum sem vilja stunda sína íþrótt með álagi afreksmanna samhliða námi. Sviðið er þannig uppbyggt að á hverri önn taka nemendur 5 eininga áfanga sem samanstendur af íþróttaæfingum og bóklegri kennslu þar sem eitt ákveðið viðfangsefni er tekið fyrir. Á þessari önn er áherslan á næringarfræði. Íþróttaþjálfarar á vegum íþróttafélaganna sjá um þjálfun á íþróttaæfingum en Kolbrún Fjóla Arnarsdóttir íþróttakennari sér um kennsluna í næringarfræði."
Það er Nebojsa Knezevic, þjálfari og leikmaður meistaraflokks Kkd. Vestra, sem mun sjá um þjálfunarþátt körfunnar í vetur. Í körfuboltahópnum eru fjórar stelpur og átta strákar en allir eru iðkendurnir nýnemar við skólann utan einn.
Nemendur á afreksíþróttasviðinu undirrita sérstakan samning þar um. Þeir skuldbinda sig til að leggja hart að sér í námi og íþróttum auk þess að neyta ekki tóbaks, áfengis, árangursaukandi efna sem og annarra vímuefna. Auk nemendanna skrifa forráðamenn, þjálfarar og fulltrúar skólans undir samninginn.
Á mánudagseftirmiðdag mættu allir nemendurnir ásamt forráðamönnum til kynningarfundar í skólanum þar sem samningarnir voru undirritaðir. Markmið MÍ er að afreksíþróttasviðið hafi mikið forvarnargildi og eigi eftir að auka tengingu milli nemenda í ólíkum íþróttagreinum sem og að stuðla að betri árangri nemenda, bæði í skóla og íþróttum. Nemendur munu fá sérstakan íþróttafatnað merktan afrekssviðinu auk þess sem þeir fengu allir afhentar nuddrúllur við samningsundirritun en þær þykja nauðsynlegar öllum þeim sem stunda íþróttir af kappi.
"Afrekssvið var um tíma starfrækt við MÍ undir stjórn Hermanns Níelssonar heitins íþróttakennara en hefur legið niðri í nokkur ár. Fyrst um sinn eru það íþróttafélögin Hörður, Skíðafélaga Ísfirðinga og blak-, knattspyrnu- og körfuboltadeildir Vestra sem eiga aðild að afreksíþróttasviði. Vonast er til að fleiri íþróttafélög bætist í hópinn á næstu misserum", eins og segir á heimasíðu MÍ.
Kkd. Vestra fagnar tilkomu afreksíþróttasviðsins og óskar nemendum, þjálfurum og skólanum velfarnaðar við uppbyggingu þessa kærkomna sviðs.
Deila