Fréttir

Körfufjör á laugardag

Körfubolti | 06.09.2012
Körfubolti er fyrir alla !
Körfubolti er fyrir alla !

Mikil körfuboltaveisla verður haldin í íþróttahúsinu á Torfnesi á morgun, laugardaginn 8. september, þar sem Körfuknattleiksfélag Ísafjarðar mun halda einskonar mini-körfuboltabúðir til að kynna grunnskólanemum þessa skemmtilegu íþrótt. Allir eru velkomnir en sérstaklega er horft til nemenda í 4-8. bekk sem hafa áhuga á körfu og vilja kynnast henni betur.

 

Körfufjörið hefst kl. 13 þar sem þjálfarar félagsins stýra stöðvaþjálfun og körfuboltaleikjum. Holl hressing verður á staðnum en að afloknum æfingum verður krökkunum boðið í pizzuveislu og skemmtilegheit í Gryfjunni í Menntaskólanum á Ísafirði. Þar verður einnig skemmtilega körfuboltamynd á skjánum sem og bein útending frá leik Íslands og Svartfjallalands með Þjálfara KFÍ sem er aðstoðarþjálfari Íslands og þar eru einnig Jón Arnór, Jakob Sigurðarson og Hlynur Bæringsson á meðal leikmanna, en þessir drengir komu hingað í æfingabúðir KFÍ í sumar og létu að sér kveða.

 

Segja má að þetta séu einskonar mini-körfuboltabúðir þar sem krökkum gefst kostur á að kynnast starfsemi KFÍ og fá upplýsingar um starfið framundan í vetur. Foreldrar eru sérstaklega hvattir til að koma og fylgjast með æfingum krakkanna en heitt verður á könnunni auk þess sem hægt verður að nálgast upplýsingabækling um starfið framundan í yngri flokkunum í vetur. Það er unglingaráð KFÍ sem stendur fyrir Körfufjörinu og er það von ráðsins að sem flestir kíki við á Torfnesi á laugardag til að kynna sér hvað KFÍ hefur upp á að bjóða fyrir yngri aldurshópa.

Deila