Landsliðsmennirnir Hörður Axel Vilhjálmsson og Haukur Helgi Pálsson heimsækja Ísafjörð á þriðjudaginn kemur og er heimsóknin liður í hinu skemmtilega átaki KKÍ sem nefnist Körfuboltasumarið 2016. Kapparnir munu sjá um tvær æfingar í íþróttahúsinu á Torfnesi fyrir yngri flokka Körfuknattleiksdeildar Vestra síðdegis á þriðjudag. Sú fyrri stendur frá 15-16.30 og er ætluð börnum sem fædd eru 2005 og yngri. Síðari æfingin verður frá 16.30-18 og er hún ætluð börnum fædd 2004 og eldri.
Auk þess að vera með ýmsa leiki og fjör leggja þeir félagar áherslu á að krakkarnir fari heim með æfingar í farteskinu sem þau geta gert sjálf án þess að hafa þjálfara eða aðra leikmenn með sér við æfingar. Átakið miðar að því að iðkendur á öllum aldri haldi sér við yfir sumartímann jafnvel þótt hefðbundnar æfingar liggi niðri.
Landsliðsmaðurinn Martin Hermannson er þriðji maðurinn í þríeykinu sem stýrt hefur Körfuboltasumrinu 2016 í samstarfi við KKÍ en hann hefur því miður ekki tök á að koma vestur að þessu sinni. Verkefnið er styrkt af Þróunarsjóði FIBA Europe (FIBA Europe Development Fund). Til viðbótar heimsóknum til hinna ýmsu íþróttafélaga um land allt hefur þríeykið staðið fyrir myndbandagerð ásamt því að halda götukörfumót á höfuðborgarsvæðinu. Ef vel tekst til með átakið í sumar má vænta þess að framhald verði á. Hér má sjá slóð á eitt myndbandanna sem litið hefur dagsins ljós í sumar:
Deila