Fréttir

Litlir leiða stóra í kvöld

Körfubolti | 01.12.2017
Þessi vaski hópur ætlar að leiða meistaraflokk karla inn á leik í kvöld. Með á myndinni eru þjálfararnir Björn Ásgeir Ásgeirsson (t.v.) og Ingimar Baldursson (t.h.)
Þessi vaski hópur ætlar að leiða meistaraflokk karla inn á leik í kvöld. Með á myndinni eru þjálfararnir Björn Ásgeir Ásgeirsson (t.v.) og Ingimar Baldursson (t.h.)

Allra yngstu iðkendur Kkd. Vestra ætla að leggja sín lóð á vogarskálarnar fyrir heimaleik Vestra og Breiðabliks í 1. deild karla í kvöld. Krakkarnir munu leiða meistaraflokksstrákana inn á völlinn og hvetja þá svo til dáða í leiknum sjálfum. Þetta er síðasti heimaleikur liðsins á þessu ári og jafnframt síðasti leikurinn á gamla parketinu á Torfnesi en strax á mánudag verður hafist handa við að endurnýja gólfið.

Krakkarnir eru á aldrinum 5-7 ára og koma mest úr æfingahópum sem kallast Krílakarfa og Krakkakarfa. Þjálfarar þessara snillinga eru ekki af verri endanum en það eru Helga Salóme Ingimarsdóttir ásamt meistaraflokksleikmönnunum Ingimar Baldurssyni og Birni Ásgeiri Ásgeirssyni. Helga Salóme mun halda utan um kríla- og krakkahópinn í kvöld en hinir tveir verða að sjálfsögðu uppteknir við verkefni kvöldsins. 

Við hvetjum alla sem vettlingi geta valdið til að koma á Torfnes í kvöld og styðja okkar menn og fylgjast jafnfram með framlagi okkar allra yngstu iðkenda. Leikurinn verður sannkallaður toppbaráttuleikur því Blikar sitja í öðru sæti deildarinnar en okkar menn í því fjórða. Vestri er enn ósigraður á heimavelli í vetur og ætla strákarnir svo sannarlega að halda því. Til að tryggja það þarf góðan stuðning áhorfenda.

Ekki þarf að hafa áhyggjur af eldamennsku í kvöld því hinir rómuðu Vestraborgarar verða að sjálfsögðu á boðstólum á sama gamla góða verðinu - litlar 1.000 krónur með gosi.

Leikurinn hefst kl. 19:15 og verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Jakinn-TV.

 

Áfram Vestri!

Deila