Fréttir

Mikil gleði á Körfuboltadegi KFÍ

Körfubolti | 16.01.2015
Hópurinn með bolina góðu frá Landflutningum og KKÍ.
Hópurinn með bolina góðu frá Landflutningum og KKÍ.
1 af 4

Körfuboltadagur KFÍ var haldinn með pomp og prakt á laugardaginn var og tóku hátt í 50 krakkar úr yngri flokkum félagsins þátt í honum. Barna- og unglingaráð stóð fyrir deginum sem hófst á æfingabúðum fyrir 8-15 ára krakka undir stjórn Labrenthiu Murdock, þjálfara og leikmanns meistaraflokks kvenna og Nebojsa Knezevic, leikmanns meistaraflokks karla. Leikmenn úr báðum meistaraflokkum félagsins aðstoðuðu einnig við þjálfunina og tókust búðirnar afar vel en markmiðið með þeim var að auka tækni og boltafærni iðkenda og skemmta sér í leiðinni.

 

Kristín Hálfdánsdóttir, svæðisstjóri Landflutninga/Samskipa á Ísafirði kom færandi hendi og gaf öllum iðkendum búðanna æfingaboli en bolirnir eru liður í öflugu samstarfi KKÍ og Landflutninga um eflingu yngri flokka körfuboltans um allt land.

 

Að búðunum loknum var boðið uppá pizzuveislu og að því búnu tók við fyrri leikur meistaraflokks karla sem fékk Þór Akureyri í heimsókn þessa helgi. Það var því sannkölluð körfuboltastemming á Torfnesi alla síðastliðna helgi. Ljóst er að margir ungir og efnilegir leikmenn leynast í yngri flokkum félagsins og verður spennandi að fylgjast með gengi flokkanna okkar á næstu misserum. Framundan eru bæði fjöllliðamót og minniboltamót en þar ber hæst Nettómótið í Reykjanesbæ sem fer fram helgina 6.-8. mars næstkomandi. Stefnt er að því að fara með sem flesta KFÍ iðkendur á Nettó líkt og gert hefur verið síðustu ár en mótið er ætlað iðkendum sem fæddir eru árið 2004 og síðar. 

Deila