Fréttir

Minniboltastrákar öflugir á sínu fyrsta Íslandsmóti

Körfubolti | 01.11.2016
Vestralið 2 á Íslandsmótinu í Seljaskóla um helgina.
Vestralið 2 á Íslandsmótinu í Seljaskóla um helgina.
1 af 2

Um helgina fór fram fyrsta umferð Íslandsmóts minnibolta eldri 11 ára drengja og var mótið haldið í Seljaskóla í Reykjavík. Kkd Vestra átti tvö lið á mótinu og var þetta frumraun beggja liða í Íslandsmóti. Fyrirkomulag mótsins er þannig að haldin eru fimm mót yfir veturinn þar sem öll lið landsins mæta og taka þátt. Er þetta nýlegt fyrirkomulag í minnibolta sem var fyrst tekið upp í fyrravetur. Þetta er fyrsti veturinn sem iðkendur Vestra taka þátt í slíku móti en fyrr í haust tóku jafnöldrur strákanna þátt í sambærilegu móti á Flúðum með góðum árangri. Liðum mótsins er skipt upp eftir styrkleika A-D og voru lið Vestra um helgina skráð í C og D-riðil að þessu sinni.

Lið 1 spilaði í D-riðli og fyrstu tveir leikirnir hjá drengjunum unnust eftir framlenginu, þriðji leikurinn vannst á síðustu sekúndunum eftir mikla baráttu þannig að menn þurftu að róa taugarnar eftir þessa leiki. Í fjórða leik okkar manna þurftu þeir að játa sig sigraða gegn sterku liði Stjörnunnar. Eigi að síður er þetta frábær árangur hjá þessu unga liði.

Lið 2 lék í C-riðli en þar var spennan ekki alveg jafn mikil og í D-riðli, en nóg samt. Þrír leikjanna reyndust erfiðir en þeir unnust allir í lokin eftir mikla baráttu. Fjórði leikurinn var mun auðveldari þar sem andstæðingurinn átti engin svör við leik Vestramanna og unnu þeir hann nokkuð örugglega. Liðið vann því alla leiki sína og færist upp í B-riðil í næstu umferð.  

Strákarnir í minnibolta eldri þjálfa og spila undir stjórn hins knáa þjálfara og reynslubolta Birgis Arnar Birgissonar. Að hans sögn var helgin í alla staði ánægjuleg og strákarnir stóðu sig eins og hetjur. Hann telur einnig einstaklega gaman að því að geta sent tvö lið á Íslandsmót þannig að allir fái tækifæri til að láta ljós sitt skína.

Strákarnir geta afar vel við unnað eftir helgina - sjö sigrar á móti einu tapi. Mót helgarinnar fer í reynslubanka strákanna og þeir mæta án efa tvíefldir til leiks á næsta mót.

Til hamingju Vestramenn!

 

Deila