Fréttir

Naumt tap í Garðabæ

Körfubolti | 29.09.2012
Jón Hrafn var sterkur í dag
Jón Hrafn var sterkur í dag

Fyrstu mínútur leiks Stjörnunnar og KFÍ gáfu þeim 6 gestum sem mættir voru til að horfa á, vísbendingu þess efnis að skollið væri loks á haust, þar sem bæði lið virkuðu afar ryðguð, ekkert flot í sóknarleiknum og miðið í skakkari kantinum, enda var staðan lengi vel 4-7 KFÍ í vil. En um miðbik fyrsta leikhluta hrukku heimamenn að einhverju leyti í gang þar sem að kani Garðbæinga, Brian nokkur Mills fór mikinn en á stundum virtist hann vera allsstaðar og í öllum stöðum, þar sem að hann skoraði hverja körfuna á fætur annari, tróð að minnsta kosti tvisvar, stal boltum, tók fráköst og varði skot Ísfirðinga. En þegar leiktíminn í fyrsta fjórðungi var við það að renna út og staðan var 25-8 Stjörnunni í vil, gerði Chris sitt besta til að kveikja neistann í sínu liði og skoraði flautukörfu og úr víti að auki. Staðan 25-11 Stjörnunni í vil.

 

Tilburðir Chris í lok fyrsta leikhluta virtust hafa tilætluð áhrif á leik KFÍ sem snarbatnaði fyrir vikið og minnkuðu þeir muninn niður í 27-17 þegar 3 mínútur voru liðnar af öðrum leikhuta, en virtust ekki ætla að ná að brjóta ísinn til fulls. En við kvað flauta dómarans um þetta leyti og fékk ungur leikmaður KFÍ Jón Hrafn að nafni sína þriðju villu í boði dómarans, en Jón hafði einmitt virkað einkar sprækastur Ísfirðinga og hélt undirritaður að nú hefði tekið botninn úr tunnunni frægu, en svo var nú ekki, því Ísfirðingum óx ásmeginn enda í heimsókn í Ásgarði, því átti það vel við.

 

Juku þeir muninn jafnt og þétt út leikhlutann og léku við hvern sinn fingur en Stjörnustrákarnir létu störf dómaranna fara í taugarnar á sér og á það aldrei góðri lukku að stýra. Þegar 3 og hálf mínúta var eftir af fyrr hálfleik leiddu Stjörnumenn einungis með tveimur stigum, 30-28. Gummi kom svo KFÍ yfir 31-30 með flottri 3ja stiga körfu en Marvin og títtnefndur Brian Mills sáu til þess að Stjarnan hélt til búningsherbergja með 4 stiga forystu, 35-31.

 

Stigahæstir hjá hvoru liði eftir fyrri hálfleik voru: 
Stjarnan: 
Brian Mills:16 stig
Marvin: 8 stig
Jovan: 7 stig
KFÍ:
Pance: 9 stig
Gummi: 6 stig
Chris: 5 stig
 
Seinni hálfleikur hófst fjörlegar en sá fyrri og komst KFÍ fljótlega yfir 38-37 og voru stærstan hluta fjórðungsins yfir 1-3 stigum. Þegar 3ji leikhluti var hálfnaður, fékk Pance sína 4 villu en hann hafði verið þokkalega ógnandi og í rauninni frekar líkur þeim Pance sem við öll þekkjum frá því fyrir nokkrum árum síðan í Úrvalsdeildinni.
En ekki riðlaðist sóknarleikur KFÍ neitt við að missa Pance út af og leiddu þeir 63-57 eftir 3ja leikhluta. Chris, Gummi og Jón Hrafn voru búnir að vera bestir fram að þessu og BJ Spencer náði sér einnig aðeins á strik í þessum leikhluta en hann skoraði 8 stig í honum.
Í fjórða leikhluta komust Ísfirðingar í væna stöðu og leiddu 67-59 þegar rúmar 2 mínútur voru liðnar af fjórðunginum, en þá var eins og að á öllu hreyflum slokknaði og Stjarnan seig á, án þess þó að eiga einhvern stórleik og þeir jöfnuðu 69-69 þegar tæpar 4 mínútur voru eftir. Tóku þá við háspennulokamínútur.
Jón Hrafn með sitt bráðfallega 3ja stiga skot kom svo KFÍ í 72-71 þegar akkúrat 3 mínútur voru eftir. Og Chris skorar úr tveimur vítaskotum eftir að KFÍ hafði stolið boltanum, 74-71.
Brian Mills keyrði í gegnum vörn KFÍ í næstu sókn og kom stöðunni í 74-73.
Chris bolast undir körfu andstæðinganna í næstu sókn og kemur stöðunni í 76-73 fyrir KFÍ.
Mills minnkar muninn í 1 stig í næstu sókn eftir það og andrúmsloftið rafmagni þrungið hjá þremur handfyllum áhorfenda í Ásgarði í dag.
Stjarnan nær boltanum eftir klaufaleg mistök KFÍ og það er brotið á Sigurði Degi hjá Stjörnunni og fær hann tækifæri til að koma Stjörnunni yfir með tveimur vítaskotum en hann misnotar bæði og Chris rífur niður frákastið og sendir boltann á Leó sem sér ekki hvar Brian Mills kemur aðvífandi og rænir Leó knettinum. Mills keyrir upp að körfunni, gefur út á Jovan sem sækir brot á vörn KFÍ þegar einungis 3 sekúndur eru eftir af leiktímanum og kemur hann Stjörnunni yfir 77-76 og fær vítaskot að auki sem hann vissulega nýtir og staðan heldur dökk hjá KFÍ, 2 stigum undir og aðeins 3 sekúndur eftir.
Pétur Már tók leikhlé og setti upp galdrakerfi eftir eigin uppskrift. Boltinn berst til Chris undir körfu Stjörnunnar og sækir hann brot og fær tvö vítaskot þegar 1.8 sekúndur voru eftir, en lukkan var ekki með KFÍ strákunum að þessu sinni, því Chris náði einungis að nýta fyrra vítaskot sitt og því fór sem fór að Stjarnan fagnaði sigri með einu stigi í þessum æfingaleik sem gaf okkur alla flóruna sem körfuboltinn hefur upp á að bjóða, haustbrag og vandræðagang í byrjun en spennu og dramatík í lokin.

Strákarnir komust ágætlega frá þessum leik, þótt margt megi bæta og það á eflaust eftir að lagast, nú þegar fullskipaður hópur fær loks tækifæri á að slípa sig saman. Pance var við sitt gamla sjálf, Leó var sprækur, Gautur átti stuttan en fínan sprett sem gaf af sér körfu, Gummi var öflugur og á eftir að koma sterkari inn þegar á líður. Chris var naut að vanda og erfiður viðureignar fyrir mótherjanna, Jón Hrafn er strákur sem vert er að fylgjast með og miðað við leikinn í dag, ætti hann að eignast ófáa aðdáendurna í Jakanum í vetur. BJ Spencer var ekki nógu sýnilegur og kannski er maður að ætla honum of stórt hlutverk, eftir skarðið sem Craig skyldi eftir sig. Mirko á eftir að komast betur inn í þetta og á hann eftir að reynast dýrmætur í harkinu undir körfunni þegar á líður tímabilið.
Stig KFÍ:
Chris: 19 stig
Jón Hrafn: 14 stig
Pance: 12 stig
BJ Spencer: 9 stig
Gummi: 8 stig
Leó: 7 stig
Mirko: 6 stig
Gautur: 2 stig
Hjá Stjörnunni var Brian Mills allt í öllu og miðað við hans frammistöðu í dag, þá er þarna á ferð úrvalsleikmaður. Undirritaður átti óformlegt spjall við Snorra Arnalds aðstoðarþjálfara Stjörnunnar sem sagði þennan leikmann hafa verið lengi í gang í síðustu æfingaleikjum en hafa sýnt það í dag að hann er leikmaðurinn sem þeir í Garðabænum sóttust eftir.
Stig Stjörnunnar:
Brian Mills: 27 stig
Marvin: 21 stig
Jovan: 13 stig
Sæmundur: 10 stig
Magnús: 4 stig
Sigurður Dagur: 2 stig
Ritun leiks.
-Skallinn 
Deila