Fréttir

Nebojsa og Nemanja áfram með Vestra

Körfubolti | 12.06.2019
Nemanja Knezevic og Nebojsa Knezevic handsala samninginn við Ingólf Þorleifsson formann. Framtíðarleikmenn meistaraflokks, þeir Guðjón Ólafur Stefánsson (t.v.) og Hjálmar Helgi Jakobsson (t.h.), halda á fána Vestra.
Nemanja Knezevic og Nebojsa Knezevic handsala samninginn við Ingólf Þorleifsson formann. Framtíðarleikmenn meistaraflokks, þeir Guðjón Ólafur Stefánsson (t.v.) og Hjálmar Helgi Jakobsson (t.h.), halda á fána Vestra.

Leikstjórnandinn Nebojsa Knezevic og miðherjinn Nemanja Knezevic hafa samið við Vestra um að spila með liðinu áfram næsta tímabil. Þeir félagar voru meðal allra bestu leikmanna 1. deildarinnar á síðasta tímabili og hafa verið kjölfestan í liði Vestra undanfarin tvö ár.

Nebojsa hefur spilað með Vestra undanfarin fjögur tímabil en áður hafði hann leikið með KFÍ tímabilið 2010-2011. Á síðasta tímabili var hann stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar með 7,1 sendingu í leik, í 7. sæti yfir stigahæstu menn með 19,1 stig, í 17. sæti yfir frákastahæstu menn með 5,9 og í 9. sæti yfir framlagshæstu menn með 21.05 framlagspunkta. Nebó er ekki bara frábær leikmaður því hann hefur einnig sinnt þjálfun af miklum metnaði. Hann þjálfaði drengjaflokk Vestra, sem komst í 8 liða úrslit í Íslandsmóti og bikarkeppni, auk þess að sinna kennslu á afreksbraut Menntaskólans á Ísafirði. Jafnframt hefur Nebojsa sinnt starfi aðstoðarþjálfara meistaraflokks karla á síðasta tímabili.

Nemanja hefur leikið tvö undanfarin leiktímabil með Vestra og hefur á þeim tíma sýnt að hann er meðal bestu miðherja landsins. Annað árið í röð var hann frákastakóngur deildarinnar með 17.9 fráköst í leik ásamt því að  framlagshæsti leikmaður deildarinnar með 33,4 punkta að meðaltali. Þar að auki var hann í 6. sæti yfir stigahæstu menn með 19.8 stig og í 17. sæti yfir stoðsendingahæstu menn með 2,8 í leik. Hann er einnig vaxandi þjálfari og hefur, í samstarfi við Yngva Pál Gunnlaugsson, sinnt þjálfun stúlknaflokks og 10. flokks stúlkna, sem komst í 8 liða úrslit Íslandsmótsins, auk 9. flokks stúlkna sem hóf keppni um áramót í Íslandsmótinu.

Þeir félagar eru frábærir liðsmenn og sannar fyrirmyndir fyrir yngri leikmenn, bæði í mestaraflokki og hjá yngri flokkum félagsins. Stjórn Körfuknattleiksdeildar Vestra hlakkar til áframhaldandi samstarfs við þessa höfðingja.

Áfram Vestri!

Deila