Fréttir

Níundi flokkur drengja upp í A-riðil!

Körfubolti | 03.11.2016
Sigurreifur 9. flokkur ásamt Hallgrími Kjartanssyni sem stýrði liðinu um síðustu helgi. Strákanna bíður nú verðugt verkefni í A-riðli Íslandsmótsins.
Sigurreifur 9. flokkur ásamt Hallgrími Kjartanssyni sem stýrði liðinu um síðustu helgi. Strákanna bíður nú verðugt verkefni í A-riðli Íslandsmótsins.

Fyrsta fjölliðamót 9. flokks drengja í B-riðli fór fram helgina 29.-30. október síðastliðinn. Keppt var í Hveragerði að þessu sinni. Okkar drengir öttu kappi við Stjörnuna, ÍR, Breiðablik auk sameiginlegs liðs heimamanna í Hamri/Þór.

Fyrsti leikur drengjanna var gegn heimamönnum sem skoruðu fyrstu 5 stig leiksins en þá tóku Vestrastrákar við sér og unnu leikhlutann afgerandi 23-7. Strákarnir slógu ekki slöku við eftir það og hreinlega völtuðu yfir heimamenn. Staðan í hálfleik var 43-13!

Meira jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik en þrátt fyrir það varð leikurinn aldrei spennandi og lauk með mjög svo þægilegum sigri, 69-36.

Allir strákarnir komust á blað í þessum leik og gaf þessi leikur góð fyrirheit um það sem koma skyldi.

Annar leikur laugardagsins var gegn Stjörnunni frá Garðabæ. Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfleik sem lauk 33-28 eftir að Garðbæingar höfðu skorað síðustu 6 stig hálfleiksins.

Í þriðja leikhluta fór að skilja milli liðanna og hafði Vestri forystu eftir hann 53-41 þar sem stigaskor leikmanna dreifðist nokkuð vel.

Svo virtist sem allur vindur væri úr Stjörnunni það sem eftir lifði leiks og fór svo að Vestri innbyrti sinn annan sigur 65-46 og voru því í baráttu við ÍR fyrir seinni daginn um að komast upp úr riðlinum, en bæði lið voru taplaus eftir fyrri daginn.

Fyrri viðureign sunnudagsin var gegn Breiðabliki. Blikar ætluðu að verja teiginn hjá sér og ætluðu þannig að halda Vestra í skefjum en þá hófst mikil þriggjastigasýning hjá Ísfirðingum. Þegar upp var staðið, hafði Vestri skilað 12 þristum rétta leið og átti það mestan þá í því að drengirnir kafsigldu Blika 80-47.

Úrslitaleikur mótsins, um að komast upp í A-riðil, var milli Vestra og ÍR sem eru þjálfaðir af fyrrum þjálfara KFÍ, Borche Ilievski. Leikurinn hafði upp á allt það besta sem úrslitaleikir hafa upp á að bjóða. Mjótt var munum og liðin börðust stál í stál enda vildi hvorugt þeirra gefa eftir. Jafnt var í hálfleik, 35-35. ÍR-ingar náðu undirtökunum í þriðja leikhluta og leiddu eftir hann með 8 stigum 53-45. Munurinn var yfirleitt 6-8 stig fyrir Breiðahyltinga í upphafi fjórða leikhluta, en þegar um 4 mínútur lifðu leiks þá setti Vestri þrjár þriggjastiga körfu með skömmu millibili sem breytti stöðunni í 67-61 fyrir þá. ÍR sótti á síðustu mínútunni og minnkaði muninn í eitt stig, 67-66, en lengra komust þeir ekki og Vestri fagnaði sætum sigri og sæti í A-riðli í næsta móti.

Hallgrímur Kjartansson stýrði liðinu í fjarveru Yngva Gunnlaugssonar og fórst honum verkefnið vel úr hendi eins og úrslitin gefa til kynna. Liðið samanstendur af fjórum 9. bekkingum, þeim Agli Fjölnissyni, Blessed Parilla, Hilmi og Huga Hallgrímssonum auk 8. bekkinganna James Parilla og Friðriks Vignisonar frá Hólmavík. Það er mikið afrek fyrir jafn fámennan hóp að komast í A-riðil Íslandsmóts og sérstaklega fyrir þær sakir að hópurinn æfir ekki allur saman að staðaldri en þrátt fyrir það er hann samheldin.

Við óskum leikmönnum, þjálfurum, fararstjórn og foreldrum til hamingju með árangurinn og áframhaldandi velfarnaðar í vetur.

Deila