Fréttir

Níundi flokkur í bikarúrslit

Körfubolti | 31.01.2017
Leikmenn 9. flokks Vestra og Yngvi Gunnlaugsson þjálfari liðsins eftir frækilegan sigur á Fjölni í undanúrslitum Bikarkeppni KKÍ.
Leikmenn 9. flokks Vestra og Yngvi Gunnlaugsson þjálfari liðsins eftir frækilegan sigur á Fjölni í undanúrslitum Bikarkeppni KKÍ.

Sunnudaginn 29. janúar dró heldur betur til tíðinda í vestfirsku körfuboltalífi þegar 9. flokkur drengja lagði Fjölni í undanúrslitum Bikarkeppni KKÍ með 56 stigum gegn 49 í Rimaskóla í Reykjavík. Vestri mun því leika til úrslita um bikarmeistaratitilinn aðra helgina í febrúar í Laugardalshöll. Þetta er í fyrsta sinn síðan 1998 sem Vestfirðingar leika til úrslita um bikarmeistaratitil en þá mætti meistaraflokkur KFÍ Grindvíkungum eins og frægt er orðið. Þegar þetta er ritað er ekki ljóst hverjir mótherjar strákanna verða því í seinni undanúrslitaleiknum mætast Valur og ÍR þann 3. febrúar.

Ef til vill hafa fáir átt von á sigri Vestra í þessum leik því Vestri telfdi aðeins fram sex leikmönnu.  Þótt liðið sé fámennt er þar að finna frábæra körfuboltamenn og umfram allt góðan liðsanda sem á stærstan þátt í velgengni liðsins.

Lið Vestra er skipað Hilmi og Huga Hallgrímssonum, Agli Fjölnissyni, Blessed og James Parilla auk Friðriks Vignissonar frá Hólmavík. Þjálfari er Yngvi Gunnlaugsson.

Vestri hafði áður sigrað lið Snæfells og Breiðabliks á leið sinni í undanúrslitin en Fjölnir hafði lagt að velli Hauka, sameiginlegt lið Skallagríms og Reykdæla og nú síðast KR í 8 liða úrslitum. Fjölnir hefur verið eitt af þremur bestu liðum landsins undanfarin ár og því var ljóst að við ramman reip yrði að draga fyrir Vestra.

Ljós var að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt í þessum leik enda úrslitaleikur í Laugardalshöll í boði fyrir sigurvegarana. Vestramenn skoruðu fyrstu körfu leiksins en voru seinir til baka í vörn og var leikskipulag Fjölnis á þá leið í upphafi að keyra upp hraðann og reyna að þreyta Vestradrengi. Fjölnir komst í 6-2 en Vestri lét ekki deigan síga og hleypti heimamönnum aldrei of langt frá sér. Fjölnismönnum tókst ekki að hrista okkar menn af sér en leiddu samt sem áður eftir fjörugan fyrsta fjórðung 22-20.

Vestrastrákar náðu forystu í annað skiptið leiknum í byrjun annars leikhluta með körfu frá Huga um leið og það var brotið á honum. Hugi hitti úr vítinu og staðan því 23-22. Fjölnir jafnaði með einu vítaskoti í næstu sókn en þá setti Vestri þrjár næstu körfur og leiddi því með 6 stigum. Fjölnir jafnaði jafn harðan en undir lok hálfleiksins skoraði Friðrik laglega körfu og fékk villu að auki þótt vítaskotið hafi ekki ratað ofan í. Fjölni brást svo bogalistin af vítalínunni í næst sókn en Hilmir lauk fyrri hálfleik með góðri tveggja stiga körfu fyrir Vestra. Hálfleikstölur 39-31 fyrir Vestra.

Aftur ætluðu Fjölnismenn að keyra upp hraðann í byrjun seinni hálfleiks en okkar strákar létu ekki slá sig út af laginun og svöruðu með góðu áhlaupi. Fyrst setti Blessed risa þriggjastiga körfu yfir varnarmenn Fjölnis og á eftir fylgdu 4 stig frá Hilmi og munurinn kominn í 9 stig, 42-33. Fjölnismenn gafst ekki upp og skoruðu næstu 5 stigin en aftur stóðust okkar menn pressuna og leiddu 47-39 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.

Fjölnispiltar réru nú öllum árum að því að ná í skottið á gestunum og var síðasti leikhlutinn æsispennandi. Fjölnir skoraði tvær fyrstu körfunar áður en Vestri svaraði með þriggja stiga körfu. Áfram sótti Fjölnir á Vestra og náði muninum niður í 3 stig undir lok leiks. Það fór því um Vestfirðinga í stúkunni þegar Egill, sem hafði verið einn besti maður Vestra, fékk á sig sína fimmtu villu og þar með útilokun frá leiknum þegar um ein og hálf mínúta var til leiksloka. En vörn Vestra, sem verið hafði til fyrirmyndar lungan úr leiknum, stóðst öll áhlaup heimamanna. Hilmir innsiglaði svo glæsilegan sigur Vestramanna með fjórum vítaskotum á lokakaflanum. Lokatölur 56-49 og farseðill í Laugardalshöllina tryggður.

Stigaskor Vestra: Hilmir 27, Hugi 16, Egill 6, Friðrik 4 og Blessed 3. James komst ekki á blað en kom við sögu í leiknum.

Nákvæm tímasetning bikarúrslitaleiksins liggur ekki fyrir en hann fer fram aðra helgina í ferbrúar, 10.,11. eða 12. febrúar sem er bikarhelgi KKÍ.

Deila