Fréttir

Nökkvi Harðarson áfram með Vestra

Körfubolti | 11.06.2017
Nökkvi Harðarson og Yngvi Gunnlaugsson, yfirþjálfari Kkd. Vestra skrifuðu í dag, á sjómannadaginn, undir samning um að Nökkvi leiki áfram með Vestra á komandi tímabili.
Nökkvi Harðarson og Yngvi Gunnlaugsson, yfirþjálfari Kkd. Vestra skrifuðu í dag, á sjómannadaginn, undir samning um að Nökkvi leiki áfram með Vestra á komandi tímabili.

Á sjómannadaginn samdi framherjinn Nökkvi Harðarson við Vestra um að leika áfram með liðinu á komandi tímabili. Dagurinn var vel við hæfi enda stundar Nökkvi sjómennsku í Grindavík nú í sumar. Nökkvi kom vestur haustið 2015 og hefur leikið með KFÍ og Vestra síðan. Hann hefur jafnframt þjálfað elsta stúlknahóp félagsins með góðum árangri og var á síðasta tímabili fyrirliði meistaraflokks.

Nökkvi hefur sýnt miklar framfarir sem leikmaður undanfarin tvö keppnistímabil enda hlaut hann viðurkenningu fyrir mestu framfarirnar á lokahófi Kkd. Vestra  í mars síðastliðnum með eftirfarandi umsögn: „Nökkvi varð fyrir því óláni að hljóta slæm höfuðmeiðsl á miðju tímabili en lét það þó ekki stoppa sig og kom gríðarlega sterkur inn í seinni hluta mótsins. Það sést vel á því að í fjórum af síðustu sex leikjum deildarinnar var hann með yfir 10 stig auk þess að vera tvisvar með tvennu (yfir 10 stig og 10 fráköst).“

Það er afara ánægjulegt fyrir Kkd. Vestra að hafa Nökkva áfram hér fyrir vestan enda er hann bæði góður liðsfélagi og efnilegur þjálfari. Stjórn Kkd. Vestra hlakkar til áframhaldandi samstarfs við Nökkva.

Deila