Fréttir

Ný karfa og boltar í boði KFÍ og Vestfirskra verktaka

Körfubolti | 16.06.2014
Hressir krakkar á Eyrarsól undir nýju körfunni frá KFÍ
Hressir krakkar á Eyrarsól undir nýju körfunni frá KFÍ

Krakkarnir á leikskóladeildinni Eyrarsól við Austurveg á Ísafirði geta nú æft sig af kappi í körfubolta því Körfuknattleiksfélag Ísafjarðar í samstarfi við Vestfirska verktaka hefur sett upp veglega körfu á leiksvæði krakkanna. Karfan ásamt nokkrum boltum er gjöf frá barna- og unglingaráði KFÍ en Vestfirskir verktakar gáfu efni og vinnu við uppsetningu til að verkefnið yrði að veruleika. KFÍ þakkar Vestfirskum kærlega fyrir stuðninginn og aðstoðina.

 

Leiksvæðið, sem er á Austurvegi milli Sundhallarinnar og Grunnskólans á Ísafirði, er sameiginlegt fyrir yngsta stigið í skólanum og Dægradvöl og því munu krakkar á aldrinum 5-9 ára njóta góðs af þessari ágætu viðbót við svæðið en staðsetningin var valin í samráði við GÍ. Lítill sparkvöllur er á svæðinu ásamt nokkrum leiktækjum og þótti forsvarsmönnum KFÍ þörf á að auka við boltaflóruna hjá yngsta aldurshópnum. Frekari framkvæmdir eru framundan við skólalóð GÍ og væntir KFÍ þess að vel verði hugað að bættri aðstöðu fyrir boltagreinarnar, ekki síst körfuboltann. Meðfylgjandi mynd var tekin á föstudag þegar KFÍ afhenti hressu krökkunum á Eyrarsól og starfsfólki deildarinnar körfuna formlega til eignar ásamt nokkrum körfuboltum.

Deila