Fréttir

Opið bréf til forsteta ÍSÍ frá Halldóri Jónssyni

Körfubolti | 13.05.2013

Hér að neðan er opið bréf  til forseta ÍSÍ sem Halldór Jónsson Vestfirðingur og sportfrömuður sem búsettur er núna á Akranesi.

 

Ég skrifa þér þetta bréf ekki eingöngu vegna þess að þú ert forseti ÍSÍ og fyrrverandi formaður Körfuknattleikssambands Íslands heldur ekki síður að þú ert forseti evrópska körfuknattleikssambandsins og ekki síst þar sem þú ert starfandi lögmaður.
 
Á síðasta ársþingi Körfuknattleikssambands Íslands var samþykkt tillaga um breytingu á reglugerð sambandsins um erlenda leikmenn. Ef ég skil umræðuna og fréttir rétt þá er körfuknattleiksliðum frá og með næstu leiktíð óheimilt að tefla fram nema einum erlendum leikmanni í hverjum leik þó heimilt sé að hafa fleiri en einn erlendan leikmann samningsbundinn. Nú skilst mér að fram að þessu hafi eitt og sama gilt um íslenska leikmenn og evrópska en annað um leikmenn utan Evrópu.
 
Nú þekkja flestir eitthvað til þeirra skilmála sem land okkar hefur undirgengist í evrópsku samstarfi þ.e. um frjálsan atvinnu- og búseturétt. Því leikur mér forvitni á að vita hver þín skoðun er á áðurnefndri samþykkt ársþings Körfuknattleikssambandsins. Telur þú sem lögmaður að hún samrýmist þeim alþjóðasamningum sem við erum bundin af? Telur þú sem forseti evrópska körfuknattleikssambandsins að hún samrýmist lögum og reglum þess sambands ? Telur þú sem fyrrverandi formaður KKÍ að hún sé framfaraskref? Hvernig telur þú að önnur lönd bregðist við henni?
 
Getum við átt von á því framvegis að sjá ekki okkar helstu kappa Hlyn Bæringsson og Jakob Örn Sigurðarson keppa framar saman undir merkjum Sundsvall Dragons í ríki Svía?
 
Á undanförnum árum hefur íslenskt samfélag tekið nokkrum breytingum í kjölfar þess að hingað hafa flutt hundruðir erlendra fjölskyldna. Hvaða skilaboð erum við að senda þessu fólki af erlendu bergi brotið og þá sérstaklega ungviðinu sem elst hér upp sem Íslendingar en eru samt sem áður erlendir ríkisborgarar. Er körfuknattleiksíþróttin að vísa þessum föngulega hópi á dyr?
 
Viljum við að Íslendingum, sem leitað hafa þurft erlendis að lífsviðurværi, verði vísað á dyr við íþróttaiðkan af þeirri ástæðu einni að þar eru aðrir útlendingar fyrir?
 
Það er mikilvægt að íþróttahreyfing okkar vaxi og dafni í framtíðinni. Hún verður hins vegar að gera það í sátt og samlyndi og vandað sé til verka hverju sinni í samræmi við lög þau og reglur er við höfum sett og undirgengist. Ég trúi því ekki að framfarir geti byggst á einangrunarhyggju heldur miklu frekar víðsýni þar sem tekið er tillit til misjafnra aðstæðna innan lands og utan. Ég vona að þú sért sama sinnis og bíð spenntur eftir svörum þínum.
 
Halldór Jónsson
-höfundur er íþróttaáhugamaður á Akranesi.
Deila