Fréttir

Pétur Már Sigurðsson ráðinn yfirþjálfari KFÍ.

Körfubolti | 26.04.2011
Sævar formaður ásamt stjórnarmönnunum Guðna Ó. Guðnasyni og Ingólfi Þorleifssyni handsala hér samninginn með Pétri Má. Sigurðssyni.
Sævar formaður ásamt stjórnarmönnunum Guðna Ó. Guðnasyni og Ingólfi Þorleifssyni handsala hér samninginn með Pétri Má. Sigurðssyni.
Körfuknattleiksfélag Ísafjarðar og Pétur Már Sigurðsson hafa gert með sér 2 ára samning um þjálfun hjá KFÍ. Verður hann yfirþjálfari félagsins þar sem hann er ábyrgur fyrir daglegum rekstri og mun þjálfa meistaraflokka karla og kvenna og yngri flokka. Pétur er af mörgum talinn einn af allra efnilegustu ungu þjálfurum á Íslandi . Hann er lærður íþróttakennari og er að klára íþróttafræðinginn frá Háskóla Íslands.

Pétur hefur spilað með Val, Skallagrím, Laugdælum, Þór Akureyri og að sjálfsögðu KFÍ. Leikmannaferill Péturs hefst ´94 og er hann enn að og hefur hann spilað um 300 leiki í meistaraflokk. Hann spilaði samtals sex tímabil hjá okkur hér fyrir vestan og er öllum hnútum kunnugur. Þess má til gamans geta að stigamet hans í einum leik var 37 í leik KFÍ gegn KR í febrúar 2005. 
 
Pétur hefur með góðum árangri þjálfað lið Laugdæla undanfarin ár og hefur verið gerður góður rómur af hans vinnu. Það er mikil tilhlökkun hér fyrir vestan að fá Pétur til starfa fyrir félagið og er enginn vafi í okkar huga að samstarfið mun verða farsælt. Við ætlumst mikils að drengnum, og hann af okkur og þannig á það að vera.
 
Pétur Már kemur hingað og tekur þátt í Körfuboltabúðum KFÍ 5-12. júní og mun eftir það setja upp sumaráætlun með styrktarþjálfara félagsins Jóni Oddsyni.

Við bjóðum Pétur Már velkominn aftur til KFÍ. 
Deila