Fréttir

Pétur Már tekur við meistaraflokki karla

Körfubolti | 24.06.2019
Pétur Már og Ingólfur Þorleifsson við undirritun samningsins.
Pétur Már og Ingólfur Þorleifsson við undirritun samningsins.
1 af 2

Pétur Már Sigurðsson hefur verið ráðinn sem þjálfari meistaraflokks karla hjá Körfuknattleiksdeild Vestra. Pétur Má þarf vart að kynna fyrir körfuboltaáhugafólki á Vestfjörðum. Hann þjálfaði karla- og kvennalið KFÍ á árunum 2011-2013 og var auk þess leikmaður liðsins á árunum 1996-2000 og aftur 2003-2005. Segja má að körfuboltarætur Péturs liggi hingað vestur og þær hafa í raun aldrei slitnað því síðastliðin ár hefur hann spilað með KFÍ-B og Vestra-B, þegar hann hefur tök á auk, þess að koma reglulega sem þjálfari í Körfuboltabúðir Vestra.

Pétur Már er með B.Sc. gráðu í íþrótta- og heilsufræðum ásamt kennsluréttindum. Þjálfaraferill hans er fjölbreyttur og farsæll, bæði á vettvangi félagsliða og landsliða. Auk þess að þjálfa KFÍ í meistaraflokkum karla og kvenna hefur hann þjálfað meistaraflokka hjá Stjörnunni, Skallagrími, Fjölni og Laugdælum. Síðastliðin ár hefur hann stýrt úrvalsdeildarliði kvenna hjá Sjörnunni með góðum árangri en liðið lék til úrslita í Bikarkeppni KKÍ og komst í undanúrslit úrvalsdeildarinnar. Á vettvangi landsliða hefur hann starfað sem aðstoðarþjálfari A-landsliðs karla auk þess að þjálfa mörg yngri landslið og er núverandi þjálfari U-20 landsliðs kvenna sem tekur þátt í Evrópukeppni í Kosovó 3.-11. ágúst næstkomandi.

Ásamt þjálfun meistaraflokks karla hjá Vestra mun Pétur taka að sér þjálfun yngri flokka. Pétur hefur formlega störf í ágúst þegar hann flytur vestur ásamt syni sínum Sigurði Darra. Stjórn Körfuknattleiksdeildar Vestra býður Pétur Má velkominn heim og hlakkar til samstarfsins við hann á næstunni.

Deila