Fréttir

Púkarnir í minniboltanum hlutu eldskírnina í dag

Körfubolti | 23.10.2010
Haukur Rafn í Nettómótinu í fyrra
Haukur Rafn í Nettómótinu í fyrra
Púkarnir okkar í minnibolta KFÍ stigu sín fyrstu skref á Íslandsmóti og voru okkur til sóma. Tveir leikir voru spilaðir í dag og töpuðust þeir báðir, en allir fengu að spila og sáust flott tilþrif inn á milli og erum við ánægð með þá alla.

Fyrsti leikurinn var gegn gestgjöfum frá Grafarvogi, Fjölni og stóðu strákarnir vel í þeim í byrjun og eftir fyrsta leikhluta var staðan 8-11 fyrir Fjölni og allt að virka vel hjá okkur, en eftir fyrstu skiptingu fór meðaldurinn vel niður og Fjölnisstrákarnir nýttu sér það og náðu að bæta í og staðan eftir tvo leikhluta 8-15. Vörnin var fín og voru Stefán, Haukur og Pétur Tryggvi iðnir við að blokka skot og rífa niður fráköst, en allir voru strákarnir hálffeimnir við að skjóta á körfuna og fara í sniðskot og það er nú einu sinni svo að ef stig eiga að koma í hús þarf að skjóta á körfuna.

Svo fór að lokum að við töpuðum leiknum 18-30, en þjálfarinn var stoltur af strákunum. Þeir spiluðu með hjartanu og sást það til að mynda á Hilmi  að þegar hlutirnir voru ekki alveg að ganga eftir planinu þá fauk í minn, en svo kom hann inn og setti 3 stig á næstu mínútu og brosið breikkaði heldur betur og hann kampakátur.

Stig KFÍ. Pétur Tryggvi og Stefán Sigurgeirsson voru með 6 hvor og Hilmir og Hrannar Egilsson voru með 3 stig hvor einnig.

Seinni virðureign KFÍ var gegn Hamri frá Hveragerði og var byrjunin ágæt og eftir mikla varnarbaráttu var staðan 8-4 fyrir Hamar. En í öðrum leikhluta fengum við áhlaup á okkur, misstum boltan ítrekað á miðjunni og staðan að honum loknum 24-4. Við tókum við okkur í þeim þriðja og staðan eftir þrjá 32-10 (8-6 í þeim leikhluta) og þegar þarna var komið voru strákarnir farnir að fatta að með baráttu og að skjóta á körfuna er ýmislegt hægt. Og við tókum fjórða leikhluta 12-11 og var virkilega gaman að sjá þá þarna púkana okkar. Í þeim fjórða tók Hamar 11-6 og lokatölur 54-28 hamar í vil.

Stig KFÍ: Pétur Tryggvi 12, Hrannar Egilsson 8, Haukur Rafn 6 og Lazar Sekoson 2.

Púkarnir sem hlutu eldskírnina í dag voru þeir. Hilmir Hallgrímsson, Stefán Kristinn Sigurgeirsson, Kjartan Daníel Helgason, Þorleifur Hallbjörn Ingólfsson, Arent Tristan Guðmundsson, Axel Thoransen, Benedikt Hrafn Guðnaron, Haukur Rafn Jakobsson, Lazar Dragoljovic, Mattías Sigurgeirsson, Hrannar Þór Egilsson og Pétur Tryggvi Pétursson.

Drengur dagsins hjá KFÍ var Pétur Tryggi Pétursson hann var iðinn við að taka fráköst og blokka skot. Skammt á eftir honum voru þeir Stefán, Hrannar og Haukur Rafn. Það er samt stígandi í liðinu og taka verður tillit til þess að við erum einungis með tvo stráka á "réttum" aldri, hinir eru allir frá 8 ára aldri. Þetta á aðeins eftir að verða betra og er tilhlökkun í öllum að bæta við ðg stíga upp. Það er góður efniviður hjá okkur og nú verður æft.

Þeir voru til fyrirmyndar allir og eiga eftir að verða enn betri á sviðum körfuboltaiðkunnar. Á morgun eru tveir leikir á dagskrá, við KR og Aftureldingu.
Deila