Fréttir

Risahelgi í körfunni

Körfubolti | 07.02.2020
Nærri lætur að allur þessi myndarlegi hópur standi í ströngu næstu daga en fimm lið Vestra leika á Íslandsmóti um helgina. Myndin var tekin á litlu jólunum í körfunni í desember s.l.
Nærri lætur að allur þessi myndarlegi hópur standi í ströngu næstu daga en fimm lið Vestra leika á Íslandsmóti um helgina. Myndin var tekin á litlu jólunum í körfunni í desember s.l.

Framundan er risastór helgi hjá yngri flokkum Körfuknattleiksdeildar Vestra en fimm lið keppa á Íslandsmótum um helgina, bæði heima og heiman. Samtals leika liðin 15 leiki og þar af fara fimm fram hér heima. Liðin eru stúlknaflokkur, drengjaflokkur, 8. flokkur stúlkna og minnibolti 11 ára - bæði stúlkur og drengir. Stuðningsfólk Vestra er eindregið hvatt til að kíkja á leiki helgarinnar og styðja þannig við krakkana okkar.

Hér heima eru stelpurnar í 8. flokki gestgjafar í þriðju umferð Íslandsmótsins í B-riðli og er leikið í Bolungarvík. Á morgun mæta þær UMFK kl. 11 og sameiginlegu liði af Suðurlandi kl. 14. Á sunnudag eru það Njarðvíkingar kl. 10 og KR kl. 13. Þjálfarinn stelpnanna er Nebojsa Knezevic.

Á sunnudag taka strákarnir í drengjaflokki á móti KR-ingum í leik sem hefst á Torfnesi kl. 15. Þeir spila einnig undir stjórn Nebojsa.

Stúlknaflokkur Vestra er eitt þriggja liða á faraldsfæti um helgina en þær eiga tvo leiki í DHL-höllinni í vesturbænum gegn KR. Sá fyrri hefst kl. 16 á laugardag og sá síðari kl. 12:30 á sunnudag. Það er Nemanja Knezevic sem þjálfar stúlknaflokkinn.

Að endingu eru það svo yngstu liðin tvö í minnibolta 11 ára sem standa í ströngu um helgina en stelpurnar fara alla leið austur á Flúðir undir stjórn Gunnlaugs Gunnlaugssonar þar sem Hrunamenn halda þriðju umferð Íslandsmótsins í MB 11 ára stúlkna. Jafnaldrar þeirra drengjamegin eru á leið í Smárann í Kópavogi en Breiðablik er gestgjafi þriðju umferðar Íslandsmótsins í MB 11 ára drengir. Það er meistaraflokksleikmaðurinn Madic Macek sem þjálfar Vestrastrákana.

Við sendum baráttukveðjur til allra iðkenda okkar og þjálfara og óskum þeim, sem eru á leið í útileiki, góðrar ferðar.

Áfram Vestri!

Deila