Fréttir

Samstarf við Kormák í 8. flokki drengja

Körfubolti | 18.01.2016
Hinn nýi 8. flokkur KFÍ, HSS og Kormáks á æfingunni á Hólmavík í gær ásamt þjálfaranum spræka, Hákoni Ara Halldórssyni.
Hinn nýi 8. flokkur KFÍ, HSS og Kormáks á æfingunni á Hólmavík í gær ásamt þjálfaranum spræka, Hákoni Ara Halldórssyni.

KFÍ (Vestri) hefur tekið upp samstarf við Kormák á Hvammstanga og mun það sem eftir er vetrar tefla fram sameiginlegu liði í 8. flokki drengja. Eru félögin þá orðin þrjú sem standa að þessum myndarlega æfingahópi en í haust höfðu KFÍ og Héraðssamband Strandamanna sameinað krafta sína og hefur það samstarf gefið afar góða raun í vetur. Samtals telur æfingahópurinn í 8. flokki 12 stráka; sjö eru úr KFÍ (Vestra), tveir úr HSS og þrír frá Kormáki. Þjálfarinn þeirra er Hákon Ari Halldórsson, liðsmaður meistaraflokks karla. Einnig eru Ísfirðingar og Strandamenn saman um 10. flokk drengja en þar stýrir Nebojsa Knezevic hópnum..

 

Áttundaflokksstrákarnir hittust á Hólmavík í gær, sunnudag, á sinni fyrstu sameiginlega æfingu, en Hólmavík er vel í sveit sett í þessu nýja samstarfi, miðja vegu milli Ísafjarðar og Hvammstanga. Æfingin tókst í alla staði vel en næstu tvær vikurnar æfa þeir hver í sinni heimabyggð og undirbúa sig fyrir  3. umferð Íslandsmótsins sem fram fer 30.-31. janúar. Mótið fer fram á vegum ÍR í Seljaskóla. Strákarnir hófu keppni í D-riðli í haust en hafa þegar unnið sig upp í B-riðil og eru ósigraðir í mótinu. Það verður spennandi að fylgjast með framvindu þeirra í lok mánaðarins.

Deila