Fréttir

Síðasti aðalfundur KFÍ og sá fyrsti hjá KKD Vestra

Körfubolti | 17.05.2016
KFÍ
KFÍ

Síðastliðinn fimmtudag, þann 12. maí,  var söguleg stund í körfuboltalífinu á norðanverðum Vestfjörðum. Þá var haldinn síðasti aðalfundur Körfuknattleiksfélags Ísafjarðar sem jafnframt var fyrsti aðalfundur körfuknattleiksdeildar Vestra.

Undirbúningur að stofnun fjölgreina íþróttafélagsins Vestra stóð yfir um nokkurt skeið og var vandað vel til verka. KFÍ tók þátt í undirbúningunum frá upphafi ásamt Blakfélaginu Skelli, Boltafélagi Ísafjarðar og UMFB og Sundfélaginu Vestra. Þann 18. nóvember síðastliðnn var samþykkt á félagsfundi KFÍ að taka þátt í stofnun Vestra með þeim fyrirvara að aðalfundur KFÍ staðfesti þá samþykkt. Í kjölfarið var íþróttafélagið Vestri formlega stofnað þann 16. janúar síðastliðinn. Skemmst er frá því að segja að á síðasta aðalfundur KFÍ var samþykkt einróma að staðfesta á tillöguna frá 18. nóvember.

Þar með var körfuknattleiksdeild Vestra formlega orðin að veruleika. Í framhaldinu var gengið til kosninga um reglugerð fyrir körfuknattleiksdeildina og var hún einnig samþykkt einróma. Þá var gengið til kosninga um embætti deildar. Ingólfur Þorleifsson var kjörinn formaður til eins árs og í stjórn voru kosin Birgir Örn Birgisson, Birna Lárusdóttir, Ingi Björn Guðnason og Shiran Þórisson. Varamenn stjórnar voru kjörnir þeir Guðmundur Einarsson, Magnús Þór Heimisson og Steinþór Bragason.

Að fundarstörfum loknum fögnuðu félagsmenn tímamótunum. 

Deila