Fréttir

Síðbúin frétt um Nettómótið

Körfubolti | 21.03.2013
Yndisleg kona með púkunum okkar á Finna hótel
Yndisleg kona með púkunum okkar á Finna hótel
1 af 10

Eins og sagt var frá fyrr í marsmánuði lagði fríður hópur af fólki af stað til Reykjanesbæjar til að taka þátt í hinu frábæra Nettómóti sem er þar árlega. Mótið fór vel fram eins og ávallt þar á bæ og voru krakkarnir okkar afar sátt og fararstjórar okkar ánægðir. Leikir okkar voru fjörlegir og er svo með þetta mót að allir eru sigurvegarar sem er mjög heilbrigt sjónarmið. Fyrst og fremst eru þessi mót félagsleg og gert til að krakkar kynnist og geti leikið sér innan sem utan vallar. Nægt var framboð á skemmtun hjá gestgjöfum okkar þar sem farið var í leikjagarð, sund, bíó og heljarinnar kvöldskemmtun var haldin. Það er óhætt að segja að krakkarnir okkar hafi heldur betur brosað og voru kát og glöð.

 

En svo kom að heimferð og þá byrjaði ballið. Ferðin heim sóttist vel mest alla leið en svo skall á óveður og komust menn illa áfram og varð svo að lokum að hópurinn sem samanstóð af fjölda velútbúna jeppa komust mislangt. Það gerði hreinlega blindbyl á Steingrímsfjarðarheiði og í djúpinu. Sumir komust í Reykjanes og fengu inni þar, enda gestrisni mikil þar á bæ. En aðrir urðu fastir á Steingrím vegna bilunar í bíl og fór svo að góðir menn frá björgunarsveitinni Dagrenningu frá Hólmavík komu og sótti fólkið okkar. Farið var með þau niður heiðina til Hólmavíkur þar sem vertinn á Finna hótel tók á móti hópnum og gestrisnin var mikil og góð.

 

Það fór svo að hópurinn var á Hólmavík þar til á þriðjudeginum og komust heim þá seint um kvöld og þar með var fimm daga ferðalagi lokið með ævintýri bæði fyrir og eftir mót sem fer í sögubækur og veður í minnum haft lengi fyrir þá sem í lentu. Þess ber þó að geta að enginn var í hættu og fararstjórn frábær með Birnu Lárusdóttur í broddi fylkingar.

 

Við í KFÍ fjölskyldunni viljum þakka öllum sem tóku þátt í þessari ferð kærlega fyrir og sérstakar kveðjur fá fararstjórar, þjálfarar og svo stórar, miklar og innilegar kveðjur fara til fólksins í Reykjanesi og Hólmavík sem bjargaði okkur á ögurstundu.

 

Deila