Strákarnir í meistaraflokki gerðu góða ferð á Laugarvatn í kvöld og lögðu þar heimamenn 108-116 í leik sem seint verður talinn leikur hinna miklu varna.
Jafnt var á með liðum í byrjun leiks en í öðrum leikhluta röðuðu Vestramenn niður þristunum og náðu um 15 stiga forustu.
Þristaregnið hélt áfram út leikinn, en Vestri 26 þrista í leiknum, og lokatölur sem fyrr segir 108-116.
Það var fámennt en góðmennt í hóp Vestra í leiknum þar sem margir af yngri leikmönnum liðsins voru fjarverandi að keppa með 11. flokki drengja. Það kom þó ekki af sök þar sem Baldur Ingi Jónasson var mættur aftur á parketið og þjálfarinn sjálfur, Pétur Már Sigurðsson, tók fram skóna.
Hjá Laugdælum mátti líka sjá kunnuleg andlit því spilandi þjálfari liðsins var enginn annar en Florijan Jovanov sem vann 1. deildina með KFÍ árið 2010 og lék samtals þrjú tímabil fyrir vestan.
Mikil hátíð var á leiknum en hann var vígsluleikur á nýju parketi á heimavelli Laugdæla.
Myndasafn: Karl West
Deila