Fréttir

Sigur á Skallagrím í Lengjubikarnum

Körfubolti | 20.09.2013

KFÍ og Skallagrímur mættust í kvöld í C-riðli Lengjubikarsins. Bæði lið þurftu nauðsynlega á sigri að halda í leiknum, Skallagrímur til að tryggja sig áfram úr riðlinum og KFÍ til að halda lifandi möguleikanum á að komast í 8. liða úrslit bikarsins.

 

Lykilmenn vantaði í bæði lið en Skallagrímur var enn án bandaríkjamanns ásamt því að Páll Axel Vilbergsson glímir við meiðsli. Hjá Ísfirðingum var Ágúst Angatýsson fjarverandi en hann hefur spilað vel með KFÍ í bikarnum, skorað 13,0 stig og tekið 7,7 fráköst að meðaltali í leik.

 

Skallagrímur byrjaði betur í leiknum undir forustu Grétars Inga Erlendssonar, sem skoraði 9 stig í fyrsta leikhlutanum, og leiddu fyrstu fjórar mínúturnar. Eftir það byrjuðu Ísfirðingar að síga fram úr með góðu liðsframlagi í vörn og sókn.

 

Þegar rúmlega 2 mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta þá gerðust undur og stórmerki í formi þess að Jason Smith misnotaði víti en hann hafði sett niður öll 21 vítin á Íslandsferli sínum fram að því. Það hafði þó ekki teljandi sálræn áhrif á Ísfirðinga sem leiddu 23-15 í lok leikhlutans.

 

Þrátt fyrir misstig sitt á vítalínunni þá var Jason vægast sagt frábær í fyrri hálfleik en hann skoraði 23 stig í honum og setti niður 4 af 5 þristum sínum. KFÍ spilaði einnig stífa vörn í hálfleiknum sem varð til þess að Skallagrímur tapaði 10 boltum, þar af 7 bara frá Grétar Inga og Orra Jónssyni. Mest náði KFÍ 14 stiga forustu í öðrum leikhluta og leiddu með 10 stigum í hálfleik, 46-36.

 

Ísfirðingar höfðu alla burði til að stinga Skallana af í seinni hálfleik en þess í stað héldu þeir gestunum inn í leiknum með því að klúðra auðveldum skotum undir körfunni og með öðrum kærileysislegum mistökum. Borgnesingar náðu þó aldrei að nýta sér það almennilega enda virtist önnur hver sending þeirra enda í höndum Ísfirðinga og hélst munurinn 7-13 stig til loka leikhlutans. Örlítil spenna hljóp þó í leikinn í lokin, ekki vegna þess að Borgnesingar áttu séns á að vinna hann heldur vegna þess að þeir þurftu að minnka muninn til að hafa betur í innbyrðis viðureignum liðanna. Skallagrímur vann fyrri leik liðanna með 5 stigum en voru 7 stigum undir þegar þeir tóku leikhlé með rétt um 1 sekúndu eftir. Eftir leikhléið freistuðu þeir þess að skora en lokaskot þeirra dansaði af hringnum. Ísfirðingar stukku því upp í annað sæti riðilsins og geta tryggt sér sæti í 8 liða úrslitunum með sigri á Hamri á sunnudaginn.

 

Jason Smith var eins og fyrr segir frábær í liði Ísfirðinga og endaði með 40 stig, 6 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Gamla brýnið Mirko Stefán stóð einnig fyrir sínu með 11 stigum og 13 fráköstum, Leó Sigurðsson setti 8 stig og baráttuhundurinn Jón Hrafn Baldvinsson skoraði 6 stig, 10 fráköst. Hraunar 3. Björgvin og Jóhann með 2 stig.


Hjá Skallagrím voru Grétar Ingi og Orri stigahæstir með 15 stig en þeir töpuðu einnig til samans 14 boltum. Egill Egilsson átti svo skínandi leik í fráköstunum og reif niður 14 stykki.

Deila